„Maður veit ekki neitt um neitt nema kynna sér málið“

Höfundar bókarinnar eru frændsystkinin Harpa Rún Kristjánsdóttir og Guðjón Ragnar Jónsson. Ljósmynd/Aðsend

Í dag kom út bókin Sumarið í sveitinni – spurningar, svör og fróðleikur um lífið úti á landi. Höfundar bókarinnar eru frændsystkinin Harpa Rún Kristjánsdóttir og Guðjón Ragnar Jónsson. Bókaútgáfan Veröld sér um útgáfu bókarinnar.

„Bókin inniheldur spurningar og svör ásamt ýmsum fróðleiksmolum um sveitina. Þá eru í henni virkilega fallegar myndir eftir Jón Ágúst Pálmason, sumar sérstaklega ætlaðar til þess að æfa á dýralitina. Hugmyndin var að gera fræðandi og skemmtilega bók fyrir alla fjölskylduna, sem hentar vel í ferðalag á landsbyggðinni,“ segir Harpa Rún í samtali við sunnlenska.is.

Eru bæði forn í háttum
„Gauji fékk hugmynd að þessari bók á nýársdag, ef ég man rétt, og hann er aldrei lengi að hrinda hlutunum í framkvæmd. Okkur finnst ákveðinn skortur á aðgengilegu efni um þessa hluti. Það þýðir ekkert að kalla fólk borgarbörn og skammast yfir því að það viti ekki nóg um sveit. Maður veit ekki neitt um neitt nema kynna sér málið. Við erum bæði frekar forn í háttum og fannst því upplagt að búa til eitthvað svona gamaldags og léttleikandi.“

Sumarið í sveitinni er að öllum líkindum ein sinnar tegundar hér á landi. „Spurningabækur eru auðvitað eitthvað sem við ólumst öll upp við og eru mjög vinsælar enn í dag. Ég er ekki viss um að þessu þema hafi verið gerð skil áður. Við reyndum líka að gera hana að einhverju aðeins meira en bara spurningabók, það eru ýmsir fróðleiksmolar og nokkrar stuttar sögur um merkileg dýr. Og svo setja myndirnar auðvitað punktinn yfir i-ið,“ segir Harpa Rún.

Myndir Jóns Ágústs gefa bókinni fjölbreyttan og lifandi blæ. Sumar þeirra eru sérstaklega hugsaðar fyrir unga lesendur til að lita og eru þeir hvattir til að kynna sér búfjárlitina og hafa vökult auga með mislitum skepnum sem sjá má í sveitinni.

Mikilvægt að taka samtalið
Harpa Rún segir að samstarfið hafi gengið vel. „Það gekk á með símtölum og tölvupóstum. Við unnum hana mikið til í google-doc, þar sem ég var í Hólum og Guðjón uppi á Bifröst. Mér fannst klárlega best að fara á fætur á morgnana, setjast við skjalið og sjá bókina skrifa sig sjálfa. Þá var hann kannski búinn að sitja við í klukkutíma og romsa uppúr sér spurningum. Þetta er frekar lýsandi fyrir okkar samstarf – hann er svona náttúruafl og ég kem á eftir og reyni að virkja þennan kraft!“

Harpa Rún segist vonast til þess að bókin henti sem flestum. „Auðvitað munu einhverjir sveitamenn, ungir og aldnir, glotta yfir hvað spurningarnar eru barnalegar, en það getur líka verið ágætt að rifja upp. Ég vona líka að myndirnar og sögurnar höfði til þeirra sem fá tíu á spurningaprófinu án þess að svitna. Fyrst og fremst held ég að hún sé skemmtileg fyrir alla fjölskylduna því hún býður uppá samtal, bæði milli fólks en líka manns og dýra og náttúru – sem er svo mikilvægt.“

„Bókin ætti að vera komin í flestar bókabúðir á morgun, og svo má alltaf heyra í okkur höfundunum,“ segir Harpa Rún að lokum en þess má geta að Sumarið í sveitinni er fyrsta bók af þremur sem hún gefur út á þessu ári.

Fyrri greinBúið að draga í sunnlenska bólusetningarlottóinu
Næsta greinFjórar milljónir króna í Ferðagjafir í gær