Lýðveldið í fjörunni

Myndlistarsýningin Lýðveldið í fjörunni opnar í dag, laugardag kl. 14, í samkomuhúsinu Gimli á Stokkseyri.

Sýningin, sem dregur nafn sitt af Stokkseyrarfjöru, er hluti af eins konar sýningargjörningi sem spannað hefur sex sýningar í fimm sveitarfélögum.

Megináherslur sýningarhópsins felast í því að efna til margháttaðrar samræðu við lýðveldið Ísland, öðrum þræði með hliðsjón af sögu, menningu og náttúrulegu umhverfi þess staðar sem myndar umgjörð sýningarinnar hverju sinni. Sýningarnar hafa verið settar upp í óhefðbundnu húsnæði með það að markmiði að kanna þá möguleika sem búa í gömlum byggingum með nýju samhengi, þar sem tvinnast saman saga gamalla atvinnuhátta, skapandi starf og viðburðir í samtímanum.

Listamennirnir sem sýna eru Anna Jóa, Bryndís Jónsdóttir, Guðbjörg Lind Jónsdóttir, Hildur Margrétardóttir, Hlíf Ásgrímsdóttir, Kristín Geirsdóttir, Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá og Ólöf Oddgeirsdóttir.

Laugardaginn 6. ágúst, kl. 14, mun hópurinn efna til fyrirlesturs í Lista- og menningarverstöðinni á Stokkseyri þar sem greint verður í máli og myndum frá sýningarverkefninu sem hófst með samsýningunni Lýðveldið Ísland í Þrúðvangi, Álafosskvosinni árið 2004 og tileinkuð var 60 ára afmæli íslenska lýðveldisins. Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis.

Sýningin stendur til sunnudagsins 14. ágúst 2011. Opið verður laugardaga og sunnudaga kl. 14-18 og eftir samkomulagi í síma 8990046. Aðgangur er ókeypis.

Sýningin hefur hlotið styrk frá Menningarráði Suðurlands.

Fyrri greinBogomil og Blikandi stjörnur
Næsta greinBændur græða land