Lúðrasveitin fékk hæsta styrkinn úr lista- og menningasjóðnum

Lúðrasveit Þorlákshafnar.

Lúðrasveit Þorlákshafnar hlaut hæsta styrkinn þegar úthlutað var úr lista- og menningarsjóði Sveitarfélagsins Ölfuss nú í byrjun mánaðarins.

Lúðrasveitin fékk 700 þúsund króna styrk til að halda teiknimyndatónleika í Þorlákshöfn í mars næstkomandi. Markmiðið er að vekja áhuga yngri kynslóðarinnar á lúðrasveitarstarfi og hvetja til tónlistarnáms.

Þá fengu garðatónleikar á bæjarhátíðinni Hamingjan við hafið 535 þúsund króna styrk. Hjónin Guðlaug Einarsdóttir og Róbert Dan Bergmundsson, í samstarfi við tónlistarmanninn Hreim Örn Heimisson, hafa skipulagt þessa vinsælu tónleika síðastliðin þrjú ár og haldið þá í garðinum sínum heima á Skálholtsbraut 11.

Þriðja styrkinn, 150 þúsund krónur, hlaut Bókmenntafélagið Bergþóra, sem starfar undir Kvenfélaginu Bergþóru, til að standa fyrir skáldakvöldi á Hjarðarbóli á morgun, 11. desember á Hjarðarbóli. Þar er lofað góðri stemningu og áhugaverðri upplifun fyrir bókmenntaunnendur.

Alls bárust fimm umsóknir að upphæð 2,9 milljónir króna til lista- og menningarsjóðsins en til úthlutunar voru 1.385 þúsund krónur.

Fyrri greinHamar vann öruggan sigur á HK
Næsta greinÖruggur sigur á heimavelli