Lokahelgi sýningar Guðrúnar Arndísar í Sesseljuhúsi

Ljósmynd/Aðsend

Helgina 19. og 20. ágúst frá kl. 14:00 til 17:00 verður haldið lokahóf sýningar Guðrúnar Arndísar Tryggvadóttur ONÍ, sem staðið hefur í Sesseljuhúsi á Sólheimum í sumar. Boðið verður upp á sýningarspjall og léttar veitingar báða dagana.

Í inngangi sýningarskrár sem fylgir sýningunni segir Hildur Hákonardóttir m.a. um myndirnar á sýningu Guðrúnar að þær „kafa í djúpið þar sem lífið fæðist og líka þar sem það endar. Hringrás tímans. Og þær vekja upp spurningar um aðkomu mannsins. Er tóm bláskelin sem jörðin hefur skapað og þróað á milljónum ára hin helga náttúra á meðan plastskel sem maðurinn steypti í verksmiðju í fyrra og var hent í vor og lendir í sjónum aðskotahlutur og ónáttúra? – Gestur á sýningu Guðrúnar getur því valið hvort hann vill leiða hugann að hringrás lífsins eða hvort hann kafi niður í undirdjúp sálar sinnar eftir röksemdum og táknmáli tilverunnar. En glettnislegur rauður krossfiskur bendir okkur á að það er leið fram á við og um að gera að njóta ferðarinnar.“

Guðrún Arndís er fædd í Reykjavík árið 1958. Hún fékk inngöngu í Myndlista- og handíða Íslands sextán ára gömul, fór í framhaldsnám til Parísar og síðan til München þar sem hún hlaut æðstu verðlaun akademíunnar við útskrift. Tveggja ára dvöl á Íslandi fylgdi í kjölfarið en síðan starfaði hún í Berlín, Bandaríkjunum og Þýskalandi. Guðrún sneri aftur til Íslands um aldamótin 2000. Hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín, bæði á sviði umhverfismála og menningarmiðlunar sem og fyrir myndlist sína. Verk hennar byggja á sterkum hugmyndafræðilegum og oft sögulegum grunni en hún gerir sífellt tilraunir með nýja tækni og frásagnaraðferðir í list sinni.

Nánar um verk og feril Guðrúnar á www.tryggvadottir.com

Fyrri greinSigurveig ráðin fjármálastjóri Landstólpa
Næsta greinRándýrt tap á heimavelli