Lokahelgi Sumartónleika

Sumartónleikum í Skálholtskirkju lýkur um helgina en dagskráin hefst í kvöld með tónleikum „Regn”.

Tónleikarnir hefjast kl. 20:00 en þar verður efnisskrá með verkum eftir Steingrím Rohloff, Tristan Murail, Ignacio Baca Lobera, Georges Aperghis og síðast en ekki síst Önnu Þorvaldsdóttur. Verk hennar „Rain” verður frumflutt á tónleikunum. Flytjendur eru Tiffany Du Mouchelle, sópran, Berglind María Tómasdóttir, flauta, Pablo Gomez Cano, gítar og Frank Aarnink slagverk.

Á laugardag og sunnudag verður sérstök ítölsk helgi þar sem kammerkórinn Libera Cantoria Pisani frá Lonigo á Ítalíu, undir stjórn Filippo Furlan, flytur annars vegar ítalska endurreisnartónlist og hins vegar íslenska og ítalska nútímatónlist.

Kl. 14 á laugardag flytur Filippo Furlan erindi í Skálholtsskóla um ítalska endurreisnartónlist og klukkutíma síðar hefjast tónleikar í Skálholtskirkju. Þar verða flutt verk eftir Bruno Bettinelli, Gaetano Lorandi, Gigi Sella, Sigurð Sævarsson, Þorkel Sigurbjörnsson og Úlfar Inga Haraldsson. Flytjendur eru Gigi Sella, sópransax og klarinetta og Libera Cantoria Pisani kammerkórinn undir stjórn Filippo Furlan.

Kl. 17 á laugardag mun Libera Cantoria Pisani kammerkórinn flytja ítalska endurreisnartónlist og 20. aldarverk eftir fjölmarga höfunda.

Á sunnudag kl. 15 verður flutt úrval úr efnisskrám laugardagsins auk tónverksins Tara’s Harp eftir Úlfar Inga Haraldsson. Flytjendur eru Michela La Fauci harpa, Libera Cantoria Pisani kammerkórinn. Stjórnandi er Filippo Furlan.