Lokahelgi með spennandi listamannaspjalli

Sumarsýningu Listasafns Árnesinga lýkur um helgina en á laugardag klukkan 14 verður listamannaspjall þar sem Eggert Pétursson, Ingólfur Arnarsson, Kees Visser og Rúrí verða í samræðum um myndlist og alþjóðleg tengsl á áttunda áratugnum og listsköpun þeirra í dag.

Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar var framúrstefnulistamönnum frá austantjaldsríkjunum mikið kappsmál að tengjast hinum vestræna listheimi. Á sama tíma var vettvangur íslenskrar samtíðarlistar að opnast upp, m.a. fyrir stefnum á borð við flúxus og póst-list. Það kom til vegna ört stækkandi tengslanets listamanna og gallería á borð við SÚM og listagalleríð að Suðurgötu 7. Þessi tvíhliða tilraun að auknum tengslum leiddi svo til fjörlegra samskipta og nokkurra sýninga ungverskra listamanna hér á landi.

Samvinna íslenskra og ungverskra listamanna varð uppspretta spaugilegra viðburða sem vöktu fólk til umhugsunar á sama tíma og þeir báru tíðum vott um sjálfshæðni.

Sumarsýning listasafnsins var endurflutningur þessara viðburða ásamt nýrri verkum eftir sömu listamenn sem tóku þátt í þessu samstarfi á sínum tíma og blésu með því lífi í íslenska samtímalist á áttunda áratug síðustu aldar.

Fyrri grein„Tilefni til að fagna uppskeru matar og menningar á Suðurlandi“
Næsta greinSamkaup lækka verð af yfir 400 vörunúmerum