Lokadagur menningarveislunnar

Lokadagur menningarveislu Sólheima verður laugardaginn 9. ágúst og að venju endar hún með mikilli hátíð. Hefðirnar eru nokkrar þennan dag og yfirleitt er gestafjöldi talsverður enda mikið að sjá, upplifa og heyra.

Þennan dag verður verður lífræni dagurinn haldinn en þar verður uppskera og framleiðsla Sólheima til sölu og smökkunar ásamt því að aðrir framleiðendur á lífrænum afurðum kynna sína framleiðslu.

Að vanda ljúka Ragnar Bjarnason og Þorgeir Ástvaldsson menningarveislunni með tónleikum í Sólheimakirkju kl. 14 og er venjulega fullt út úr dyrum þegar þessir snillingar mæta með einstaka gleði í farteskinu. Aðgangur á tónleikana rétt eins og alla aðra viðburði er ókeypis.

Í Tröllagarði verður varðeldur og söngur ásamt því verður boðið uppá grænmetissúpu af hlóðum og brauð úr bakaríi Sólheima. Fyrir utan kaffihúsið verða leikir fyrir börn á öllum aldri og í sundlauginni.

Reynir Pétur heilsar upp á gesti og gangandi og gefur lífrænt grænmetismakk.

Tilboð verður á fjölmörgum tegundum lífrænna trjáa, blóma kryddjurta og grænmetis.

Í versluninni Völu og Tröllagarði verða lífrænar vörur til sölu m.a. frá:matvinnslu Sólheima, Hæðarenda, Móðir Jörð, Grænahlekknum og Bíó bú.

Þennan dag eru síðustu forvöð að sjá sýningarnar sem voru settar upp fyrir menningarveisluna en þær opna klukkan 12:00 og loka klukkan 18:00

Fyrri greinSunnlensku liðin töpuðu öll
Næsta greinLeikskólagjöld lækkuð um 25%