Lög Gunna Þórðar á stórtónleikum á Laugarvatni

Nær allir söngnemendur skólans koma fram á tónleikunum og einnig fjöldi samspilshópa og hljómsveita. Ljósmynd/TÁ

Tónlistarskóli Árnesinga stendur fyrir stórtónleikum á Laugarvatni næstkomandi laugardag, þann 19. nóvember, þar sem flutt verða lög Gunnars Þórðarsonar. Tónleikarnir hefjast kl. 14:00 í íþróttahúsinu á Laugarvatni.

Þetta er í þriðja sinn sem skólinn setur upp svo stórt samstarfsverkefni hljóðfæra- og söngdeilda, en árið 2016 var viðfangsefnið Töfraflauta Mozarts og árið 2019 var sett upp Allskynsóperan með tónlist úr ýmsum áttum.

„Það stóð til að halda þessa tónleika síðastliðið vor, en vegna endalausra forfalla vegna covid-veikinda síðasta vetur urðum við að fresta tónleikunum fram á nýtt skólaár. Við erum því full tilhlökkunar að geta loks flutt lög Gunnars Þórðarsonar á laugardaginn,“ sagði Helga Sighvatsdóttir, skólastjóri, í samtali við sunnlenska.is.

Nemendur Tónlistarskóla Árnessýslu eru 560 talsins en á tónleikunum á laugardag koma fram um 120 nemendur.

„Nær allir söngnemendur skólans koma fram, bæði nemendur í einsöngsnámi og einnig söngfuglarnir okkar sem eru 9 til 15 ára, og einnig fjöldi samspilshópa og hljómsveita. Við hvetjum að sjálfsögðu Sunnlendinga til að mæta og kynnast gróskumiklu starfi skólans,“ sagði Helga ennfremur.

Á tónleikunum má heyra lög eins og Þitt fyrsta bros, Vetrarsól, Gaggó Vest og mörg fleiri. Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir!

Helga Sighvatsdóttir, skólastjóri.
Fyrri greinÁskorun að loknum íbúafundi Heidelberg Material
Næsta greinJóhannes ráðinn framkvæmdastjóri Auðhumlu