„Lofa skemmtilegu kvöldi“

Guðrún Gunnarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Laugardaginn 7. september mun söngkonan Guðrún Gunnarsdóttir halda tónleika ásamt hljómsveit á Hendur í höfn í Þorlákshöfn.

Veitingastaðurinn Hendur í höfn hefur aldeilis fest sig í sessi að undarförnu sem tónleikastaður og keppast tónlistarmenn og aðrir skemmtikraftar við að fá að troða þar upp.

„Mér fannst svo spennandi að vera í þessu húsnæði og þessari stemmningu sem Dagný er búin að koma upp í Hendur í Höfn. Það myndast svo skemmtileg stemmning í svona rými þar sem gestir og tónlistarmenn eru þétt saman. Mér finnst gaman að spjalla við gestina milli laga svo þetta verður svo persónulegt og skemmtilegt,“ segir Guðrún í samtali við sunnlenska.is.

Vandræðileg uppákoma á Þórshöfn
Aðspurð hvort hún hafi áður haldið tónleika í Þorlákshöfn segir Guðrún að hún hafi einhvern tíman sungið á jólatónleikum þar í bæ og sennilega eitthvað fleira.

„Ferlinn er langur og svo óhemjumargt sem maður hefur tekið þátt í svo stundum rennur þetta saman. Til dæmis var ég að syngja á jólatónleikum á Þórshöfn á Langanesi fyrir nokkrum árum og sagði við tónleikagestina að það væri nú gaman að koma á Þórshöfn þar sem ég hefði aldrei komið þangað áður. Það fór kliður um kirkjuna og eftir tónleikana komu nokkrir til mín og minntu mig á að ég hefði verið þarna með tónleika í kirkjunni nokkrum árum áður, ein með píanóleikara og hefði verið boðin í kaffihlaðborð hjá íbúum eftir á og átt skemmtilega stund með fólkinu. Það var svolítið vandræðalegt að hafa gleymt því,“ segir Guðrún.

Hlakka mikið til
Guðrún segist vera vel stemmd fyrir tónleikana. „Ég hlakka mikið til og lofa skemmtilegu kvöldi. Tónleikarnir verða skemmtileg blanda af góðri tónlist og góðum textum, úr ýmsum áttum, gamalt og nýrra efni. Svona bland í poka af því sem ég hef verið að syngja undanfarna áratugi.“

„Þetta eru tónleikar fyrir alla þá sem hafa gaman af að fara á góðan veitingastað og njóta lifandi tónlistar í leiðinni. Ég verð með frábæra spilara með mér og við verðum vel stemmd, við hlökkum mikið til!“ segir Guðrún að lokum.

Facebook-viðburður tónleikanna

Fyrri greinSverrir ekkert með í vetur
Næsta greinTinna semur við Selfoss