Ljósmyndar fugla á Suðurlandi og víðar

Árni Árnason, kennari og fuglaljósmyndari. Ljósmynd/Aðsend

Árni Árnason, kennari til margra ára og fuglaljósmyndari, hefur á undanförnum árum helgað sig fuglaljósmyndun og þar kemur Suðurlandsundirlendið sterkt inn.

Lestur barna hefur löngum verið Árna hugleikinn og hefur hann í gegnum tíðina samið og þýtt fjölmargar bækur, sem flestar eiga það sameiginlegt að höfða ekki síst til þeirra barna sem af einhverjum ástæðum glíma við lestrarerfiðleika, en spilla síður en svo fyrir hinum fluglæsu, enda er efnið yfirleitt áhugavert.

Nýlega sendi Árni frá sér bókina Lesum um fugla. Þar kynnir hann til leiks í stuttu máli og með vönduðum ljósmyndum um 70 tegundir algengra fugla. Við forvitnuðumst aðeins um þessa bók og sitthvað fleira.

Hvað geturðu sagt okkur um bókina?
„Jú, hún er hugsuð fyrir börn sem eru farin að lesa sér til gagns og nýtist þeim og öllum öðrum sem hafa áhuga á að kynnast algengum fuglum í íslenskri náttúru. Bókin er þannig uppbygg að fuglunum er raðað upp eftir stafrófinu, sem gerir það að verkum að það er þægilegt að leita í henni, svo er lýsandi mynd af hverjum fugli fyrir sig og tvö til þrjú stikkorð um hvern þeirra, sem er svo svarað í stuttum texta þar á eftir.“

En hvernig geta foreldrar komið að bókinni og stutt við lestur barna sinna?
„Það geta þeir gert með ýmsu móti. Þeir geta auðvitað hjálpað þeim við að lesa textann og rætt um þau atriði sem þar eru nefnd, svo sem hvað það merki hjá álftinni „að vera í sárum“, eða þá að hrafninn „sé alæta“. Svo er hægt að lesa í myndirnar og ræða um þær, en allt þetta – lestur, spjall um textann og myndirnar – hjálpar börnum að auka við orðaforða sinn og lesskilning og bætir svo vitaskuld sjálfan lesturinn hjá viðkomandi barni. Ég hvet foreldrana eindregið til að sitja með börnum sínum þegar að þessi bók, nú eða þá einhver önnur, er í höndunum á þeim og sýna því áhuga sem þau eru að lesa og/eða skoða. Það er sannkölluð gæðastund og skilar sér heldur betur þegar að fram líða stundir.“

Bókin Lesum um fugla. Mynd/Hólar
Fyrri greinHvergerðingar fara varlega í gjaldskrárhækkanir
Næsta greinMagnaðar sögur af völvuleiðum