Ljósi varpað á „týnda félagið“

Í gær var opnuð sýning á Bæjarbókasafni Ölfuss þar sem farið er yfir sögu Framræslu- og áveitufélags Ölfuss.

Sýningin var gerð að frumkvæði Sigurðar Hermannssonar frá Gerðakoti, en hann kom að máli við menningarfulltrúa og benti á að félag þetta væri ekki að fá þá umfjöllun sem það ætti skilið og væri jafnvel að falla í gleymsku.

Sigurður hafði skrifað grein er hann nefndi „Týnda félagið í Ölfusi“ og er greinin meðal þess sem menningarfulltrúi notar við textagerð fyrir sýninguna. Erfitt var að finna efni um félagið en þegar farið var að leita kom þó eitt og annað í ljós. Grein Tómasar Jónssonar úr Árnesingi, er fjallar um engjaheyskap í Ölfusi, er einnig notuð á sýningunni, bæði textinn og myndir, en myndirnar eru í vörslu Héraðsskjalasafns Árnesinga.

Auk mynda og texta gefur að líta tannhjól úr flotgröfu sem notuð var til að grafa stærstu skurðina í Ölfusengjunum. Einnig hefur Héraðsskjalasafnið lánað fundargerðabækur félagsins á sýninguna og Verkfræðistofa Suðurlands lánaði gamalt kort yfir áveitukerfi Ölfuss.

Sýningin er opin út september á opnunartíma bókasafnsins.

Fyrri greinÞorláksbúð í smíðum
Næsta greinMengunarslysið getur ekki endurtekið sig