Ljósbrá og Kolbrún halda tvenna jólatónleika

Ljósbrá Loftsdóttir (t.v.) og Kolbrún Katla Jónsdóttir. Ljósmynd/Sandra Dís Sigurðardóttir

Vinkonurnar Kolbrún Katla Jónsdóttir frá Lyngholti í Flóahreppi og Ljósbrá Loftsdóttir frá Tröð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi halda tvenna jólatónleika í næstu viku, í Villingaholtskirkju 18. desember og í Stóra-Núpskirkju 19. desember. Hefjast báðir tónleikarnir kl 20:00.

Kolbrún Katla og Ljósbrá eru báðar 18 ára og stunda söngnám við Tónsmiðju Suðurlands. Í janúar leggja þær land undir fót og hefja frekara söng- og tónlistarnám við Odder Højskole í Danmörku. Odder Højskole er lýðháskóli sem býður meðal annars upp á fjölbreytt tónlistarnám. Má þar nefna hljóðfæraleik, kórsöng og lagasmíðar. Nám sem þetta er kostnaðarsamt og því vaknaði sú hugmynd að halda jólatónleika til að fjármagna ferðina og námið að einhverju leyti.

Á tónleikunum verður boðið upp á fjölbreytt úrval jólalaga, bæði gömul og góð en einnig nokkur í nýrri kantinum. Stefán Þorleifsson, söngkennari þeirra til margra ára, mun leika undir á píanó. Aðgangseyrir er 2.500 kr en ókeypis er inn fyrir 12 ára og yngri. Athugið að enginn posi verður á svæðinu.

Fyrri greinSterkur sigur Þórsara
Næsta greinTómas Haukur ráðinn til Rangárþings ytra