Ljóðrænar æskuminningar

Benedikt Jóhannsson, sálfræðingur frá Stóru-Sandvík, sendi á dögunum frá sér sína fyrstu ljóðabók og ber hún nafnið "Á sléttunni".

„Það hafa orðið kaflaskipti því eldra fólkið, sem ég ólst upp með í Stóra húsinu í Sandvík, hefur verið að falla frá. Þessar breytingar fengu mig til að hugsa til baka og í bókinni reyni ég að lýsa andrúmsloftinu sem ég ólst upp við,“ segir Benedikt aðspurður um hvað hafi orðið til þess að hann réðst í útgáfu bókarinnar.

„Textarnir í Á sléttunni eru ljóðrænar frásagnir um hvernig var að alast upp á fjölmennum sveitabæ og hvernig reynslan fylgir manni til borgarinnar. Þetta er auðvitað mjög persónulegt fyrir mig en passar líka inn í andrúmsloftið núna, eftir hrunið, þegar horft er á fjármálaheiminn og þá menningu sem ríkti hér í bólunni og hún borin saman við gömlu grundvallargildin. Mín kynslóð er alin upp við að peningarnir vaxi ekki á trjánum. Maður þurfti að bjarga sér og fólkið kepptist við að skapa verðmæti. Þetta þekkja fleiri en ég og þess vegna höfða ljóðin vonandi líka til annarra en þeirra sem þekktu til í Stóru-Sandvík,“ segir Benedikt.

„Stærstur hluti ljóðanna hefur orðið til á síðustu tíu, fimmtán árum. Þetta hefur smám saman verið að safnast upp hjá mér en þegar ég varð fimmtugur þá sagði ég að ég myndi gefa út ljóðabók ef ég næði að verða sextugur. Ég varð að standa við það,“ segir Benedikt sem varð sextugur fyrr á árinu og hélt upp á afmælið í sumar.

„Sextugsafmælið var samhliða útgáfu- og tónlistarveisla en þar fékk ég meðal annars tvær efnilegar söngkonur til að syngja lög með textum sem ég hef samið í gegnum tíðina,“ bætir Benedikt við en hann hefur m.a. samið íslenska texta við erlend dægurlög og einnig við sönglög Borgarkórsins. Tvö þeirra, annað um Árborg og hitt um Ölfusá, voru frumflutt við opnun Vors í Árborg í Gónhól á Eyrarbakka árið 2008.

Á sléttunni er ekki fyrsta bók Benedikts en hann hefur sent frá sér tvær fræðilegar bækur, annars vegar um skilnað og hins vegar um hjónaband og sambúð. „Þá síðari, sem heitir Við tvö, skreytti ég með prósaljóðum til að gefa henni tilfinnningalegt vægi, sem þarf að vera í hjónabandi.“

Benedikt slær á létta strengi þegar hann er spurður að því hvort von sé á fleiri ljóðabókum eftir hann. „Kannski gef ég eitthvað út ef ég næ að verða sjötugur. Ég er að leika mér að þessu og vona að aðrir hafi gaman að.“

Á sléttunni er m.a. seld í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi og í flestum stærri bókaverslunum á höfuðborgarsvæðinu, m.a. í Eymundsson.

Fyrri greinNýtt myndband
Næsta greinNýr þurrkari þrefaldar afköst