Ljóð í lystigarði

Í lystigarðinum í Hveragerði hanga nú uppi tuttugu ljóð eftir Önnu Margréti Stefánsdóttur. Þau eru öll á og í trjánum nærri aðalinnganginum í garðinn en þó þarf að ganga inn á milli trjánna og kannski leita að sumum.

Ljóðin eru ætluð bæði börnum og fullorðnum og gefa tækifæri til að velta ýmsu fyrir sér, ekki síst samskiptum, líðan og jafnvel húmor. Ljóðin munu verða þarna fram í miðjan október, nema Kári karlinn komi og rífi þau niður fyrr.

Hveragerði hefur fyrr og nú verið þekkt sem listamannabær. Í upphafi var bærinn nk. listamannanýlenda og enn í dag laðast listamenn að Hveragerði. Þar búa enn skáld, tónlistarmenn og málarar, að ógleymdu öllu listræna handverksfólkinu sem sífellt er að skapa og rekur handverksverslun í verslanamiðstöðinni í Sunnumörk.

Anna Margrét, höfundur ljóðanna í lystigarðinum, bjó í Hveragerði til skamms tíma og var þá kennari við grunnskólann. Anna Margrét hefur gefið út eina ljóðabók. Hún heitir Engillinn minn og er n.k. ljóðsaga um vegferðina gegnum sorgina og heilunina eftir að hafa misst fóstur. Bókin er einnig ríkulega skreytt með vatnslitaverkum sem einnig eru eftir Önnu Margréti.

Ljóðagjörningurinn í lystigarðinum er frumkvæði Önnu Margrétar og er settur upp í trjánum til að fá fólk til að anda að sér haustinu, ilmi trjánna og anda ljóðanna, tæma hugann og láta sér líða vel… og það gerir ekkert til þó rigni.

Fyrri greinSelfoss með sigur í fyrsta leik
Næsta greinSamkeppni um skipulag Geysissvæðisins