Litla hryllingsbúðin slær í gegn

Ljósmynd/Aðsend

Tónlistarskóli Rangæinga frumsýndi síðastliðinn fimmtudag söngdagskrá byggða á Litlu hryllingsbúðinni. Þetta var lítil hugmynd í upphafi, sem vatt heldur betur upp á sig.

„Það kom upp sú hugmynd í vetur að æfa lög úr Litlu hryllingsbúðinni og æfa smá leik með og flytja í lok apríl fyrir okkar nánustu,“ segir Aðalheiður Margrét Gunnarsdóttir, söngkennari við Tónlistarskóla Rangæinga.

„Það vatt upp á sig, við fengum hljómsveit til að spila undir, blómið hjá Leikfélagi Keflavíkur, sviðsmynd hjá Leikfélagi Austur-Eyfellinga, málara á sviðsmynd, hljóðmann, ljósamann, sviðsmenn og fleira. Við erum búin með generalprufu og frumsýningu með svaka flottum sal og mikilli stemningu og það er uppselt á sunnudag og mánudag,“ segir Aðalheiður en þau hafa gripið til þess ráðs að bæta við aukasýningu annað kvöld, sunnudag kl. 19:30 og er sú sýning bara fullorðna, 18 ára og eldri.

„Þetta er búið að vera ofboðslega gaman og góðar viðtökur,“ segir Aðalheiður en hópurinn sem hún kennir eru fullorðnir söngnemendur, sem koma saman og æfa sig á syngja fyrir hvort annað og saman á sviði.

Miðasala á sýningarnar er á netfanginu songleikur@tonrang.is eða í síma 8989909 og hér má finna viðburðinn á Facebook.

Fyrri greinBrynjar hætti eftir 20 ára formennsku
Næsta greinDramatík í lokin og FH með forystuna