Litla hryllingsbúðin frumsýnd í kvöld

Ingberg Örn Magnússon og Helga Melsted í hlutverkum Baldurs og Auðar. Ljósmynd/Leikfélag Hveragerðis

Leikfélag Hveragerðis frumsýnir í kvöld söngleikinn vinsæla Litlu hryllingsbúðina.

Litla hryllingsbúðin er sígildur söngleikur, fullur af húmor, góðri tónlist, heillandi persónum og krassandi söguþræði. Baldur Snær þrælar alla daga í blómabúð Markúsar á Skítþró og dreymir um ástir Auðar, en hún er í tygjum við leðurklæddan tannlækni með kvalalosta. Dag einn uppgötvar Baldur dularfulla plöntu sem á eftir að breyta lífi hans.

Söngleikurinn var upphaflega frumsýndur á Broadway árið 1982 og var sýndur samfleytt í 5 ár á. Árið 1986 var gerð kvikmynd byggð á söngleiknum sem náði miklum vinsældum. Leikritið var frumflutt á Íslandi árið 1985 og hefur verið sett upp í þrígang hjá atvinnuleikhúsum ásamt því sem nokkur áhugaleikfélög hafa spreytt sig á verkinu.

Höfundur er Howard Ashman en Alan Menken samdi tónlistina. Íslenska þýðingu gerði snillingurinn Gísli Rúnar Jónsson og hinn eini sanni Megas þýddi bundið mál. Leikstjóri er Jóel Sæmundsson.

Í tilkynningu frá Leikfélagi Hveragerðis segir að þar á bæ þótti félögum rökrétt að setja upp þetta verk sem gerist að mestu í blómabúð og fjallar um illgjarna plöntu, enda er Hveragerði þekkt sem blómabærinn. Átta leikarar fara með fjölmörg hlutverk í sýningunni en alls koma um 20 manns að uppfærslunni.

Nánari upplýsingar er að finna á Facebooksíðu Leikfélags Hveragerðis.

Fyrri greinBörnin í skýjunum með stórglæsilegt útisvæði
Næsta greinStyrktu Krabbameinsfélag Árnessýslu um hálfa milljón króna