Listasmiðja og leiðsögn um safnið

Á hátíðinni Blóm í bæ um helgina verður boðið upp á listasmiðju fyrir börn og leiðsögn um sýningar Listasafns Árnesinga.

Helena Guttormsdóttir, myndlistarmaður og brautarstjóri umhverfisskipulagsbrautar Landbúnaðarháskóla Íslands, leiðir tvær listasmiðjur á lóð Listasafns Árnesinga laugardaginn 27. júní. Þátttaka í listasmiðjunum er ókeypis og hægt að taka þátt annars vegar á tímanum kl. 10-12 og hins vegar kl. 14-16. Þær eru hugsaðar fyrir börn á öllum aldri, gjarnan fjölskyldur þar sem unnið verður með efnivið sem er á staðnum og fenginn er úr náttúrunni í og við Hveragerði. Möguleikar forma náttúrunnar verða kannaðir og verk unnin á staðnum sem verða höfð til sýnis meðan á hátíðinni stendur. Helena hefur áður leiðbeint á vinsælum námskeiðum í Listasafni Árnesinga.

Á sunnudeginum, 28. júní kl. 15 mun Inga Jónsdóttir safnstjór ganga með gestum um sýningarnar Geymar og Flassbakk þar sem sjá má hvernig Sirra Sigrún Sigurðardóttir veltir fyrir sér ólíkum viðfangsefnum sem snerta mannlega tilvist og þróar verk sín út frá því. Hún vinnur m.a. markvisst með tölfræðilegar upplýsingar, myndrænar niðurstöður kenninga eða vísindarannsókna, ummyndar þær og aðlagar lögmálum myndlistar s.s. lit, formi, rúmi og tíma. Á sýningunni Flassbakk fékk Sirra að velja saman verk úr safneign Listasafns Árnesinga, sem kalla fram endurminningar frá Selfossi þar sem hún ólst upp og safnið var fyrst staðsett ásamt Byggðasafni Árnesinga og náttúruminjadeild þess.

Listasafn Árnesinga er opið alla daga kl. 12 – 18 og aðgangur er ókeypis.

Fyrri greinHeilsustofnunin í Hveragerði 60 ára
Næsta greinSigrún meðal styrkþega