Listasmiðja náttúrunnar á Stokkseyri

Listasmiðja náttúrunnar hefur starfsemi sína með námskeiði á Stokkseyri næstkomandi sunnudag og er liður í dagskrá Vor í Árborg.

Listasmiðja náttúrunnar er vistvænt farandnámskeið þar náttúran og nærumhverfið á hverjum stað er efniðviður listsköpunarinnar.

Tilgangur námskeiðanna er að gefa einstaklingum, hópum og fjölskyldum tækifæri til að eiga gæðastundir og vinna saman að skapandi listrænum verkefnum, tengja börn og fullorðna í gegnum skemmtilega upplifun í náttúrunni og opna augu fólks fyrir möguleikum í nærumhverfi sínu.

Leiðbeinendur eru Ása Berglind Hjálmarsdóttir, tónlistarkona, Ása Hlín Svavarsdóttir, leikari, Helena Guttormsdóttir, myndlistarkona og Sesselja Guðmundsdóttir tónlistarkona. Hugmyndin að Listasmiðjunni kviknaði þegar þær voru við nám í Listkennsludeild Listaháskóla Íslands.

Allir eru velkomnir og viljum við sérstaklega hvetja fjölskyldur til þess að taka þátt í námskeiðinu sem er öllum að kostnaðarlausu. Námskeiðin á sunnudag verða tvö, kl. 13.00 og 16.00 og byrja og enda í Gimli á Stokkseyri (gamla bókasafnið). Listasmiðja náttúrunnar er styrkt af Menningarráði Suðurlands og Menningarráði Vesturlands.

Nánari upplýsingar um námskeiðið er hægt að fá með því að senda tölvupóst á asaberglind@gmail.com.