Listasafnið tilnefnt til Eyrarrósarinnar

Listasafn Árnesinga er komið í hóp þriggja verkefna sem keppa um Eyrarrósina 2015. Eyrarrósin er veitt árlega framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunnar.

Auk Listasafnsins eru það Frystiklefinn á Rifi og Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði sem eru tilnefnd. Hvert verkefni hlýtur flugmiða frá Flugfélagi Íslands og peningaverðlaun.

Það kemur síðan í ljós við hátíðlega athöfn á Ísafirði þann 4. apríl næstkomandi hver stendur uppi sem Eyrarrósarhafi ársins 2015 og fær í verðlaun 1.650.000.- kr. Dorrit Moussaieff forsetafrú, verndari Eyrarrósarinnar mun afhenda verðlaunin á Ísafirði.

Í Listasafni Árnesinga fer fram metnaðarfullt sýningarhald. Að jafnaði eru settar upp fjórar til sex sýningar á ári. Áherslan í sýningarhaldi og meginmarkmið safnsins er að efla áhuga, þekkingu og skilning á sjónlistum með sýningum, fræðslu, umræðu og öðrum uppákomum sem samræmast kröfu safnsins um metnað, fagmennsku og nýsköpun.

Markmið Eyrarrósarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista. Að verðlaununum standa Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík.
Fyrri greinSlitlag verður lagað með vorinu
Næsta greinLeggja til að Gaulverjasókn fari undir Selfossprestakall