Listasafn Árnesinga opið á ný

Frá og með fimmtudeginum 13. janúar er Listasafn Árnesinga aftur opið eftir hátíðirnar og býður gesti velkomna að skoða tvær sýningar, annars vegar sýninguna MÖRK og hins vegar sýninguna Listamannabærinn Hveragerði.

Nýliðið ár var metár hjá safninu hvað varðar gestafjölda og tvær sýningar ársins fengu umfjöllun sem áhugaverðurstu sýningar ársins í umfjöllun og samantekt á menningarframboði nýliðins árs annars vegar í Morgunblaðinu og hins vegar í Víðsjá hjá RÚV.

Auk þess að skoða áhugaverðar sýningar í safninu er einnig aðstaða fyrir gesti að skapa sjálfir eða sökkva sér í myndlist af ýmsum toga m.a. með margvíslegum listabókum sem liggja frammi en einnig er hægt að skrá sig í fjölbreytt myndlistarnámskeið sem fram fara í safninu undir leiðsögn Guðrúnar Tryggvadóttur.

Samantekt á núverandi sýningum er þessi. MÖRK hverfist um fjölbreytt og ólík pappírsverk eftir fjóra kvenkyns myndlistarmenn af yngri kynslóð. Nafn sýningarinnar er með tilvísun bæði í skóginn sem leggur grunn að pappírsgerð en einnig í mörk eða þröskulda sem bæði skapendur og njótendur þurfa að ýta á og eða yfirstíga.

Sýningin um Listamannabæinn Hveragerði er nú aftur sameinuð og til sýnis, nú í LÁ. Þar eru fyrstu ár þéttbýlismyndunar í Hveragerði kynnt og ferill sex rithöfunda sem settust að í Hveragerði á þeim tíma. Einnig má sjá tillögu að útisýningu af sama meiði þar sem fleiri listamenn sem tengst hafa samfélaginu verða einnig kynntir til sögunnar, en hvorki fyrr né síðar hefur hlutfall listamanna í nokkru bæjarfélagi hér á landi verið jafn hátt og á frumbýlisárum Hveragerðis. Útisýningin verður sett upp í Lystigarðinum í Hveragerði í áföngum næstu tvö sumur.

Sýningarnar munu standa til 21. febrúar. Safnið er opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12 – 18 og aðgangur er ókeypis.

Fyrri grein„Lát mat þinn vera meðal þitt“
Næsta greinFyrstu Sunnlendingar ársins komnir í heiminn