Listamannaspjall með Doddu Maggý

Í dag kl. 15 verður Dodda Maggý með listamannsspjall á sýningunni Horizonic í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.

Fyrir sýninguna vann Dodda Maggý hljóðlaust myndband en tónlistarlegur bakgrunnur hennar hafði áhrif á það hvernig hún nálgaðist gerð þess þar sem litir, hreyfing og hrynjandi tengja það tónlistarlegri upplifun.

Hún fangaði gróður í blóma, endurvann myndirnar, fjarlægði bakgrunninn, raðaði saman á ný, notaði speglun og líkt og oft áður varð til lýrískt verk sem sýnir ósýnilega og hugræna hluti í líkingu við skynjunartengdar upplifanir eða breytt meðvitundarstig, en… í dag gefst gott tækifæri til þess að ræða um verkið og sýninguna við listamanninn sjálfan, leita svara og spyrja þeirra spurninga sem vakna.

Höfundar verkanna á sýningunni eru Amund Sjølie Sveen (Noregur), Åsa Stjerna (Svíþjóð), Catrin Andersson (Svíþjóð), Dodda Maggý (Ísland), Elin Øyen Vister (Noregur), Goodiepal (Færeyjar), Halldór Úlfarsson (Ísland), Iben Mondrup (Danmörk/Grænland), Jessie Kleemann (Grænland) og Kristín Björk Kristjánsdóttir eða Kira Kira (Ísland).

Sýningunni lýkur 1. júlí nk. Listasafn Árnesinga er opið alla daga kl. 12 – 18 og er aðgangur ókeypis.

Fyrri greinFagrir fossar Hverfisfljóts skoðaðir
Næsta greinMikið um að vera á Sólheimum