Listamannaspjall með Eygló

Sunnudaginn 7. febrúar kl. 15 mun Eygló Harðardóttir, myndlistarmaður, taka þátt í sýningarspjalli í Listasafni Árnesinga í Hveragerði á sýningunni MÖRK.

Heiti sýningarinnar hefur jafn margar og ólíkar tilvísanir sem verkin eru mörg, en ein tilvísunin er í skóginn sem leggur grunn að pappírsgerð, efni allra verkanna á sýningunni. Heitið getur líka þýtt einskonar línu eða þröskuld sem bæði skapendur og áhorfendur ýta á eða yfirstíga.

En þó að efniviður verkanna sé pappír þá er hann af ýmsum gerðum og úrvinnslan margbreytileg. Verkin sem ýmist eru tvívíð eða þrívíð skapa áhugavert samtal og samhengi sín á milli og koma á óvart.

Myndlistarmennirnir Eygló Harðardóttir, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Karlotta Blöndal og Ólöf Helga Helgadóttir eru höfundar verkanna.

Á sunnudaginn gefst gestum tækifæri til þess að svala forvitni um tilurð nokkurra verkanna með því að eiga beint samtal við listamanninn Eygló Harðardóttur. Með litum og formgerð höfðar Eygló frekar til upplifunar og tilfinninga áhorfandans en skilnings, upplifun sem er ávallt persónuleg. Hún mun ræða um við gesti hvernig við skynjum liti og form í rými en það er háð ýmsum þáttum og skilyrðum. Hún mun einnig segja frá hvernig hugmyndir vakna og glímuna við að útfæra þær.

Eygló nam myndlist bæði hér heima og í Hollandi og hefur notið ýmissa viðurkenninga fyrir list sína. Samhliða listsköpun hefur hún sinnt listkennslu við Listaháskólann og Myndlistaskólann í Reykjavík með hléum.

Sýningin MÖRK stendur til 21. febrúar og er opin fimmtudaga til sunnudaga kl. 12 – 18 og aðgangur er ókeypis.

Fyrri greinOddný á opnu húsi á Selfossi
Næsta greinFjöldi sunnlenskra fyrirtækja eru framúrskarandi