Listamannaspjall Hrafnhildar Ingu

Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir stendur fyrir listamannaspjalli í Galleríi Fold við Rauðarárstíg í dag, sunnudag kl. 14 til 16.

Á listamannaspjallinu mun Hrafnhildur Inga ræða við gesti um sýninguna sína Strauma sem nú stendur yfir í galleríinu en á sýningunni eru 15 ný olíumálverk.

Sýningunni hefur verið framlengt til 2. október.

Hrafnhildur Inga Sigurðardóttir er fædd á Vestur-Sámsstöðum í Fljótshlíð og ólst þar upp. Hún stundaði myndlistarnám við Myndlistaskólann í Reykjavík 1978 og 1979, Myndlista og handíðaskóla Íslands, nú Listaháskóla Íslands 1980-1984 og lauk þaðan prófi í grafískri hönnun. Árin 1999 og 2000 bætti hún við sig námi í olíumálun í Myndlistarskóla Kópavogs.

Þetta er tólfta einkasýning Hrafnhildar og hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hér og erlendis þar á meðal í Vilnius, Barcelona og New York.