Listamannaspjall á sumardaginn fyrsta

Hrafnkell Sigurðsson við eitt verka sinna. Ljósmynd/Listasafn Árnesinga

Listasafn Árnesinga býður upp á listamannaspjall við Hrafnkel Sigurðsson á sumardaginn fyrsta, 25. apríl, klukkan 14:00.

Kristín Scheving safnstjóri og Hrafnkell munu spjalla saman um list hans og sýninguna Loftnet. Aðgangur er ókeypis.

Sýningin Loftnet stendur yfir til 25. ágúst næstkomandi. Náttúran er ekki bara allt um lykjandi heldur leynist hún sömuleiðis innra með okkur og hindrar okkur í að draga skörp skil milli ytri veraldar og innri vitundar. Þess vegna glímir Hrafnkell við náttúruna eins og sá sem veit sig vera óaðskiljanlegan hluta hennar í einu og öllu.

Hann spennir hornótt og áberandi tjöld sín – framandi aðskotahluti í líkingu við samhverfar geimstöðvar eða austurlenskar pagóður – andspænis mjallhvítri fönninni alltumlykjandi. Leikur hans í náttúrunni einkennist af ögrandi hvatskeytni af því umgjörðin getur ekki fylgt honum eftir í reglufestu en verður að láta sér nægja að vera hlutlaus bakgrunnur sviðsetninga hans.

Fyrri greinTveimur sleppt úr haldi
Næsta greinGröfutækni bauð lægst í Rauðholtið