Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin

Sýningin „Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin“ verður opnuð í verslunarmiðstöðinni Sunnumörk í Hveragerði í dag kl. 17:00.

Sýningin „Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin“ er fyrsta sýning Listvinafélags Hveragerðis og verður opnuð á bæjarhátíðinni Blóm í bæ nk. föstudag. Sýningin er hönnuð sem farandsýning með aðsetur fyrsta árið í verslunarmiðstöðinni Sunnumörk, nánar tiltekið fyrir framan Bókasafnið í Hveragerði, en hugmyndin er að sýningin fari síðan um landið á næstu árum. Sýningin er bæði á íslensku og ensku og þjónar því einnig hlutverki menningarfræðslu fyrir erlenda gesti.

Sýningarstjórn og -hönnun er á höndum Guðrúnar A. Tryggvadóttur en hún hannaði einnig sýninguna „Hveragerði – vin skáldanna“ fyrir Félag eldri borgara í fyrra. Sýningin nú er beint framhald af þeirri sýningu en í útvíkkaðri mynd þar sem lesendur hafa stóru hlutverki að gegna á nýju sýningunni.

Mikill metnaður og áhugi er hjá félagsmönnum Listvinafélagsins að þróa sýninguna áfram og stækka í skrefum. Fleiri skáld, rithöfundar, myndlistarmenn og tónskáld munu verða hluti af sýningunni og fræðslugildi hennar aukið á ýmsa vegu, m.a. á vefnum www.listvinir.is sem nú er í þróun.

Stjórn Listvinafélagsins skipa þau Guðrún Arndís Tryggvadóttir formaður, Eyþór H. Ólafsson, Sölvi Ragnarsson, Heiðdís Gunnarsdóttir, Hlíf S. Arndal, Inga Jónsdóttir og Svanur Jóhannesson.

Fyrri greinBlómasirkus í Hveragerði um helgina
Næsta greinÁheitahlaup í nafla alheimsins