Listakvöld með ritlist, tónlist og myndlist

Árleg jóladagskrá Bókasafnsins í Hveragerði og Listasafns Árnesinga verður haldin í listasafninu í kvöld, mánudaginn 1. desember kl. 20.

Þá munu rithöfundarnir Guðrún Eva Mínervudóttir, Jóhanna Kristjónsdóttir, Ófeigur Sigurðsson og Pétur Gunnarsson lesa úr nýjum bókum sínum og Kristín Dagmar Jóhannesdóttir listfræðingur les úr nýrri myndlistarbók sem hún ritstýrði. Tónlistarmaðurinn Magnús Þór Sigmundsson mun leika nokkur lög og í safninu er einnig hægt að skoða sýningarnar Vegferð – Halldór Ásgeirsson og Umrót; íslensk myndlist um og eftir 1970, sem er samstarfsverkefni með Listasafni Íslands.

Englaryk, skáldsaga Guðrúnar Evu Mínervudóttur, segir frá stúlkunni Ölmu sem, í sumarfríi með fjölskyldu sinni, hittir Jesú. Þetta er samtímasaga um mannleg tengsl, hversdagsþrautir og mátt hugsjónanna. Enn einu sinni hefur Guðrún Eva vakið athygli fyrir frumleg og fáguð tök á töfrum hversdagsins.

Í endurminningarbókinni Svarthvítir dagar hefur Jóhanna Kristjónsdóttir ritað einlæga og opinskáa frásögn af uppvexti sínum í Reykjavík fyrstu 15 árin, þ.e. 1940-1956. Með hlýju, húmor og innsæi glæðir hún fjölskyldu sína og fólkið í kringum þau lífi.

Kristín Dagmar Jóhannesdóttir er ritstjóri bókarinnar sem hún kynnir, Dancing Horizon, sem er heildaryfirlit yfir hin kunnu ljósmyndaverk Sigurðar Guðmundssonar frá árunum 1970-1982. Á sýningunni UMRÓT er einnig verk eftir Sigurð.

Í Veraldarsögu Péturs Gunnarssonar, sem ber undirtitilinn Ævisaga hugmynda, segir frá því þegar höfundurinn hleypir heimdraganum örlagaárið mikla 1968 og dvelur í Frakklandi við skáldskap undir yfirskini náms. Þetta er saga Péturs og fólksins í kringum hann en einnig saga fyrstu ljóðabókar hans.

Í skáldsögunni Öræfi hefur Ófeigur Sigurðsson skrifað magnaðan óð um öræfi landsins, öræfi mannssálarinnar og öræfi íslenskrar menningar. Þar skiptist á fjarstæðukennt grín og kraftmikil ádeila og allt vitnar um djúpa tilfinningu höfundar fyrir íslenskri náttúru og mannlífi gegnum aldirnar.

Magnús Þór Sigmundsson hefur verið ötull við að semja lög og texta, sem mörg hver eru perlur íslenskrar dægurtónlistar. Á þessu aðventukvöldi í listasafninu mun hann flytja nokkur verka sinna.

Aðgangur er ókeypis og boðið verður upp á kaffi og piparkökur.

Fyrri greinStefnt að úthlutun lóða næsta vor
Næsta greinTrölli mætir í Bókasafnið