Listakvöld í Hveragerði

Bókasafnið í Hveragerði og Listasafn Árnesinga bjóða að venju til jóladagskrár á fullveldisdaginn 1. desember kl. 20:00, með ritlist, tónlist og myndlist.

Þá munu rithöfundarnir Einar Már Guðmundsson, Hrafnhildur Schram, Kristín Helga Gunnarsdóttir, Ragnar Helgi Ólafsson og Þórunn Jarla Valdimarsdóttir lesa úr bókum sínum. Tónlistaratriði verður flutt af sunnlenskum ungmennum í Tónlistarskóla Árnesinga og í listasafninu eru tvær sýningar, annars vegar MÖRK þar sem sjá má fjölbreytt verk sem öll eru unnin í pappír og hinsvega Listamannabærinn Hveragerði – fyrstu árin og tillögu að útfærslu í útisýningu.

Lesið verður úr eftirfarandi bókum:

Hundadagar er skáldsaga Einars Márs Guðmundssonar. Leiftrandi skemmtileg saga um stórhug, vandræði, bresti og breyskleika. Sagan er ævintýraleg – og ævintýrin söguleg. Frásögnin leiðir okkur á vit Jörundar hundadagakonungs, Jóns Steingrímssonar eldklerks og fleira fólks fyrri alda.

Nína S. er heiti bókarinnar sem Hrafnhildur Schram hefur skrifað um Nínu Sæmundsson sem fyrst íslenskra kvenna nam höggmyndagerð. Hún vakti strax athygli í Danmörku á námsárunum, starfaði um tíma í París en fluttist síðan til Bandaríkjanna þar sem hún bjó í þrjá áratugi.

Litlar byltingar, skáldsaga Kristínar Helgu Gunnarsdóttur eru sögur af tíu konum sem spanna í senn eitt kvöld, eitt ár og heila öld. Gerir maður litlar byltingar, sem fæstir taka eftir, þá hreyfist veröldin með manni þangað sem förinni er heitið, en stórar byltingar skila eftir sig sviðna jörð.

Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum er heiti ljóðabókar eftir Ragnar Helga Ólafsson. Höfundur hefur eftirtektarverð tök á því að klæða myndir í orð og hann teflir saman óskyldum hlutum af óhátíðleka sem skapar ákveðna spennu sem ljær ljóðunum aukna dýpt.

Stúlka með höfuð er heiti bókar Þórunnar Jörlu Valdimarsdóttur. Þar segir hún frá uppvexti sínum í Reykjavík rokksins og hippaáranna, þar sem erfiður skilnaður foreldranna varpaði skugga á gleðina. Opinská frásögnin er ofin trega og hamingju, léttleika og djúpum söknuði.

Tónlistarskóli Árnesinga býður upp á metnaðarfullt tónlistarnám sem mörg sunnlensk ungmenni nýta sér og hafa náð góðum árangri. Tónlistaratriði kvöldsins kemur frá tónlistaskólanum, en „hvað það verður veit nú enginn“ fyrr en þar að kemur sem jólagjöf til gesta kvöldsins.

Aðgangur er ókeypis og boðið verður upp á kaffi og piparkökur.

Fyrri greinJólaglugginn opnaður í bókasafninu
Næsta greinErna J: Hvers eiga börnin að gjalda?