Listahátíðin „Dálítill sjór“ á Eyrarbakka

Alþjóðlega listsýningin og vinnustofan Oceanus Hafsjór „Dálítill sjór“ hófst á Eyrarbakka þann 6. júlí síðastliðinn en formleg sýningar opnun verður í dag klukkan 14:00.

Sýningin stendur á laugardögum og sunnudögum til 23. júlí kl. 13-18. Á þeim tíma munu sýningar, gjörningar, dans, tónlist og performance, munu fara fram í Kartöflugeymslunni, verksmiðjuhúsnæði við Búðarstíg, Mangaskúr og fleiri óhefðbundnum sýningarrýmum víðs vegar um þorpið á Eyrarbakka.

Að sögn Ástu Guðmundsdóttur, sem stendur fyrir sýningunni, er helsta markmið verkefnisins að efla menningarstarfsemi og listsköpun á svæðinu og í nágrenni þess.

„Við viljum virkja almenning til listsköpunnar. Vekja áhuga á menningu og sögu okkar sem fyrirfinnst ríkulega á Eyrarbakka. Annað mikilvægt markmið er að auka víðsýni og efla tengingar við framandi menningarheima og hleypa auknu lífi í og fá sýn annra á samfélagið okkar. Eyrarbakki verður í brennidepli, iðandi af lífi og íbúar héraðsins og aðrir gestir, finna, upplifa og taka mögulega þátt í undirbúningi og verða þannig partur af hátíðinni,“ segir Ásta og bætir við að „glöggt sé gests augað“ og þannig verði áhugavert að sjá túlkun listafólksins á umhverfi og menningu okkar.

Þátttakendur í sýningunni eru 20 listamenn frá Slóvakíu, Póllandi, Þýskalandi, Mauritius, Frakkalandi, Suður Kóreu og Íslandi. Þeir dvelja flestir á Eyrarbakka í u.þ.b. 2-3 vikur og vinna að list sinni, jafnframt því að frumsýna myndefni og myndskeið frá hátíðinni í fyrra, Hafsjó Oceanus. Listamennirnir eru myndlistarfólk, tónlistarfólk, ljósmyndarar, gjörningalistafólk, dansarar og rithöfundar.

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Fyrri greinÁrborg tekur 1,4 milljarða króna lán til tveggja ára
Næsta greinFluttur með þyrlu eftir fall í Brúará