Listagjöfum tekið fagnandi

Lay Low var einn þeirra listamanna sem heimsótti Sunnlendinga um helgina. Ljósmynd/Listahátíð í Reykjavík

Yfir eitt hundrað listamenn í fremstu röð komu fram um land allt um helgina á hundruðum stuttra viðburða í og við heimili almennings.

Viðburðirnir voru hluti af verkefninu Listagjöf til þjóðarinnar og var á vegum Listahátiðar í Reykjavík.

Listafólkið dúkkaði upp allt frá Kópaskeri til Keflavíkur og ýmist söng og spilaði, fór með ljóð, dansaði eða sýndi aðrar listir.

Margt af allra fremsta listafólki landsins tók þátt í verkefninu, sem gengur út á það að almenningi gafst kostur á að panta listagjöf fyrir ástvin. Þannig var listafólkið oft að birtast sem óvæntur glaðningur á síðustu helgi aðventunnar.

Það heyrir til tíðinda að stórstjörnur íslensks listalífs banki uppá heima hjá fólki. Mikil stemmning myndaðist á samfélagsmiðlum yfir helgina, þar sem þiggjendur og gefendur Listagjafa deildu skemmtilegum og oft tilfinningaríkum myndskeiðum og ljósmyndum af heimsóknum listafólksins.

Þrátt fyrir þær hörmungar sem dundu á Austurlandi í síðustu viku tókst að koma langflestum gjafanna til skila þar. Vegna veðurs varð hins vegar að fresta Listagjafaheimsóknum á Vestfjörðum. Reynt verður að sæta lagi þegar veður leyfir og afhenda þær í lok janúar.

Verkefnið var að þessu sinni dyggilega stutt af mennta- og menningarmálaráðuneyti og því voru allar listagjafir ókeypis. Verkefnið er framhald á Listagjöf, sem var viðbragðsverkefni Listahátíðar í Reykjavík við samkomutakmörkunum á tímum heimsfaraldurs, og vakti mikla lukku í Reykjavíkurborg í byrjun nóvember.

Fyrri greinÓk framhjá naglamottu og var „keyrður út“ við Selfoss
Næsta greinTorfhús Retreat fékk umhverfisverðlaun Bláskógabyggðar