Lillý söng listavel til sigurs

Magnús Kjartan Eyjólfsson, söngvari Stuðlabandsins, afhendir Lillý sigurlaunin en sigurinn virtist koma henni á óvart. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Króksarinn Emelíana Lillý Guðbrandsdóttir úr Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna sem haldin var í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi í kvöld.

Lillý söng lagið Aldrei, íslenskan texta við lagið Never Enough úr The Greatest Showman og gerði það listavel.

Alls stigu 25 keppendur á sviðið í Iðu í kvöld og er óhætt að segja að umgjörð keppninnar hafi aldrei verið betri og margir keppendanna voru mjög sterkir söngvarar, þannig að dómnefndin átti úr vöndu að ráða. Mat dómnefndar vó 50% á móti símakosningu.

Í öðru sæti varð Bára Katrín Jóhannsdóttir úr Verzlunarskóla Íslands og í þriðja sæti varð Jada Birna Long Guðnadóttir úr Menntaskólanum í tónlist.

Fulltrúar Fjölbrautaskóla Suðurlands og Menntaskólans að Laugarvatni voru þeir Gísli Freyr Sigurðsson og Gunnar Tómasson og voru þeir vel studdir af áhorfendum enda stóðu þeir sig báðir með miklum sóma og fóru langt með að rífa þakið af Iðu.

Emelíana Lillý Guðbrandsdóttir, sigurvegari Söngkeppni framhaldsskólanna 2024. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Bára Katrín Jóhannsdóttir varð í 2. sæti. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Jada Birna Long Guðnadóttir varð í 3. sæti. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Gunnar Tómasson, fulltrúi Menntaskólans að Laugarvatni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Gísli Freyr Sigurðsson, fulltrúi Fjölbrautaskóla Suðurlands. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinStærsti viðburður allra tíma í Iðu
Næsta greinMörkunum rigndi í Mjólkurbikarnum