Lífsspeki á striga

Málverkasýning Grétu Berg, Lífsspeki á striga, var nýlega sett upp í Bókasafninu í Hveragerði.

Á sýningunni, sem er sölusýning, eru átta olíumálverk og ein krítarteikning af Grétu sjálfri. Í verkunum leitar Gréta inn á við og tjáir með þeim lífsspeki, eins og yfirskrift sýningarinnar ber með sér.

Gréta er fædd á Akureyri en býr nú í Hveragerði. Hún er hjúkrunarfræðingur við Heilsustofnun NLFÍ og hefur starf hennar og samskipti við fólk ásamt hugleiðslu og slökun veitt henni orku og innblástur til sköpunar og hún hefur einnig notað myndsköpun í starfi. Myndir hennar eru ljóðrænar og út úr þeim má gjarna lesa sögur.

Gréta hefur teiknað frá barnsaldri. Hún hefur stundað nám á Listabraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti, í Handíða- og myndlistarskólanum í Reykjavík, Myndlistarskólanum í Reykjavík og á Akureyri og hefur einnig sótt nám í listmeðferð.

Gréta er félagi í SÍM. Upplýsingar um hana og slóð að myndum hennar er að finna á www.umm.is.

Sýningin er opin um leið og safnið, virka daga kl. 13-19 og laugardaga kl. 11-14 og stendur til 31. maí.