Lífsmyndir Tryggva og Finns Bjarka í Gallerí Ormi

Feðgarnir Tryggvi Ingólfsson og Finnur Bjarki Tryggvason á Hvolsvelli opna ljósmyndasýningu í Gallerí Ormi í Sögusetrinu á Hvolsvelli, föstudaginn 15. apríl næstkomandi kl. 18:00.

Sýningin ber yfirskriftina Lífsmyndir, en með henni langar þá feðga til þess að skapa jákvæðari minningar um 15. apríl. Fyrir tíu árum, þann 15. apríl 2006 slasaðist Tryggvi alvarlega þegar hann féll af hestbaki og skilur dagurinn eftir sig sterkar minningar og breytta heimssýn hjá fjölskyldunni.

„Við höfum báðir tekið myndavélina með okkur um víðan völl í leik og starfi. Sýningin byggist á efnistökum sem við báðir höfum upplitað á ólíkum tíma með ólíkum aðferðum,“ segir Finnur Bjarki og vísar þar annars vegar til ljósmyndunar á filmu, og hins vegar stafrænnar ljósmyndunar.

„Jóna Sigurþórsdóttir, ljósmyndari, hefur verið okkur til halds og trausts í undirbúningi sýningarinnar og hefur orðið við þeirri ósk okkar að vera sýningarstjóri.“

Sýningin mun standa út maímánuð en á henni má sjá fjölbreytt úrval mynda af eldsumbrotum, sjómennsku, ferðalögum, framkvæmdum og dýralífi, svo eitthvað sé nefnt.

Fyrri greinAlvarlegt umferðarslys við Landvegamót
Næsta greinMarín Laufey glímudrottning í fjórða sinn