Lífrænn dagur á Sólheimum

Í dag, laugardaginn 13. ágúst, verður lífrænn dagur á Sólheimum í Grímsnesi.

Söluaðilar, framleiðendur og aðrir sem tengjast þessum lífsstíl sýna sig og sjá aðra og Félag lífrænna neytenda mun kynna sig og sína starfssemi. Afurðir úr bakaríi, matvinnslu, jurtstofu, garðyrkjustöð og gróðurhúsum Sólheima verða í boði á staðnum.

Góðir gestir verða á svæðinu og má m.a. nefna að Íris Hera Norðfjörð frá veitingastaðnum Kryddlegnum hjörtum, sem er gestakokkur Sólheima þetta árið, býður gestum uppá lífrænar súpur sem eru hennar sérgrein ásamt lífrænu brauði og salati frá Sólheimum.

Hátíðin verður í Grænu könnunni, kaffihúsi Sólheima.

Kl. 14:00 verða Raggi Bjarna og Þorgeir Ástvalds með tónleika og að þeim loknum kl. 15:00 verður fræðsluganga frá Sesseljuhúsi um tínslu matsveppa með sveppasérfræðingnum Michele Rebora.

Á Sólheimum er upphaf lífrænnar ræktunnar á Norðurlöndunum, en lífræn ræktun hófst á Sólheimum fyrir rúmum 80 árum.

Lífræni dagurinn hefst kl. 12:00 og stendur til kl 18:00 og eru allir velkomnir.

Fyrri greinFjóla Signý tvöfaldur meistari
Næsta greinReiða sig á aðkeypt hey