Lífleg dagskrá á 17. júní í Hveragerði

Það stefnir í mikla hátíð í Hveragerði á þjóðhátíðardag okkar Íslendinga á 17. júní í ár. Fastir liðir hátíðardagskrárinnar verða á sínum stað; skrúðganga, hugvekja, fjallkonan, menningarverðlaun Hveragerðisbæjar, ávarp frá forseta bæjarstjórnar og nýstúdents.

Þá verða tónlistaratriði frá Söngsveit Hveragerðis, Grétari Örvars og Unni Birnu, Leikfélagi Hveragerðis og Prettyboitjokko auk þess sem Íþróttaálfurinn sýnir listir sínar og spjallar við yngstu kynslóðina.

Að lokinni formlegri hátíðardagskrá á sviðinu verður alls konar fjör í Lystigarðinum og nágrenni s.s. froðufjör með slökkviliðinu, sápufótbolti með 3. flokki kk hjá Hamri, hoppukastalar, andlitsmálun með leikfélaginu, leikir og þrautir með skátunum og „streetball“ mót með körfuknattleiksdeild Hamars. Afmæliskaka í boði forsætisráðuneytisins í tilefni dagsins og skátarnir verða með candyfloss og popp til sölu á hátíðarsvæðinu.

Hátíðahöldin byrja snemma því að morgni þjóðhátíðardags verður teymt undir börnum hjá Hestamannafélaginu Ljúfi í Reykjadal og Wibit þrautabrautin í Sundlauginni Laugaskarði verður opin alla helgina.

Menningar-, atvinnu- og markaðsnefnd hvetur hátíðargesti til að mæta í þjóðbúningum ef þeir hafa tök á (upphlutur, peysuföt, skautbúningur o.fl.). Þeim sem verða í þjóðbúningum er boðið að safnast saman í Varmahlíðarhúsinu þar sem hægt verður að spjalla, hjálpast að við skotthúfur eða annað. Að loknum ljóðalestri fjallkonunnar verður myndataka með öllum sem mæta í þjóðbúningi á hátíðahöldin og vilja vera með á myndinni. Stefnt er að því að slík myndataka verði árlegur viðburður hér eftir.

Auk formlegrar dagskrár á vegum Hveragerðisbæjar verður hátíðar kaffihlaðborð á Rósakaffi, tónleikar í Hveragerðiskirkju með Pétri Nóa Stefánssyni og Gunnlaugi Bjarnasyni þar sem þeir flytja íslensk þjóðlög og sönglög og Skyrgerðin verður með hamborgara og pylsur í tjaldi fyrir utan veitingastaðinn. Aðrir veitingastaðir bæjarins verða að sjálfögðu opnir og bjóða gesti velkomna líkt og aðra daga.

Það stefnir í líf og fjör á þjóðhátíð í Hveragerði svo nú er bara að vona að veðrið verði okkur hliðhollt. Aðalmálið er þó að hafa hátíðarskapið og gleðina með í för og njóta þess að eiga ánægjulegan dag í góðum félagsskap allan þjóðhátíðardaginn.

Dagskrá þjóðhátíðardagsins í Hveragerði

Fyrri greinGöngumaður slasaðist á Valahnúk
Næsta greinEllefu iðkendur frá fimleikadeild Selfoss æfa fyrir EM