Lífi blásið í Listvinafélagið

Í dag kl. 13 er boðað til fundar í Listasafni Hveragerðis þar sem reynt verður að blása lífi í Listvinafélag Hveragerðis sem stofnað var árið 2007.

Félagið á sér það markmið að koma upp safni í Hveragerði til minningar um þá listamenn sem bjuggu þar um og eftir 1940.

Eftir stofnun árið 2007 starfaði félagið í eitt ár og tókst á þeim stutta tíma að safna mörgum af bókum skáldanna sem bjuggu í Frumskógum, sem þá var kölluð Skáldagatan. Þeim var komið fyrir á Bókasafni Hveragerðis og eru varðveittar þar í sérstökum lokuðum skáp.

Á Blómstrandi dögum sl. sumar efndi Félag eldri borgara í Hveragerði til sýningar í Þorlákssetri á verkum skáldanna og ýmsum munum úr þeirra eigu og tókst hún með ágætum og sóttu hana um 500 manns.

Fyrsta verkefni Listvinafélagsins verður að varðveita þau upplýsingaspjöld sem gerð voru fyrir sýninguna og nýta þau til nýrrar sýningar í Hveragerði á næstunni.