„Líður alltaf svo vel nálægt sjónum“

Hera. Ljósmynd/Saga Sig

Næstkomandi sunnudag – á sjálfan konudaginn – mun söngkonan Hera Hjartardóttir halda tónleika á Hendur í höfn í Þorlákshöfn.

„Ég hef heyrt svo fallega talað um þennan stað og hef lengi verið á leiðinni. Mér þykir svo endalaust vænt um það að vera komin aftur til Íslands og komast út á land að spila, sérstaklega nálægt sjónum en þar líður mér alltaf svo vel,“ segir Hera í samtali við sunnlenska.is.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Hera heldur tónleika í Þorlákshöfn: „Ég kom á tónleikaferðalagi með Bubba árið 2002 – en ég held það séu í alvörunni átján ár síðan ég spilaði í Þorlákshöfn – sem er klikkað,“ segir Hera.

Ný plata væntanleg
Á tónleikunum mun Hera spila blöndu af gömlu og nýju efni. „Ég hef verið að vinna í nýrri plötu undanfarin þrjú ár sem Barði Jóhannsson (Bang Gang) stýrir upptökum á. Það eru tvö lög komin út/í spilun og platan er væntanleg á þessu ári. Það má líka alveg senda inn óskalög – alltaf skemmtilegt að finna og pússa upp gömlu lögin aftur. Svo eru lög sem eru mér mjög kær – tileinkuð konum í tilefni dagsins. Smá þema,“ segir Hera og brosir.

Aðspurð fyrir hverja tónleikarnir séu helst svarar Hera því að tónlist sé fyrir alla. „Þessir tónleikar byrja snemma eða klukkan 18:00. Allir velkomnir og það verður kósí stemning. Ég hlakka bara endalaust mikið til að fá að koma og segja sögur og syngja við sjóinn,“ segir Hera.

„Eftir þetta, eða um miðjan mars, er ég á leiðinni út til Austin Texas að spila á SXSW tónleikahátíðinni, kem svo aftur til Íslands og er að plana aðra tónleikaferð um landið í sumar þegar platan kemur út,“ segir Hera.

Instagram filter í boði
„Svo ef einhver vill prufa, þá nýkomin út Instagram filter (og hann má finna HÉR) – þá birtist andlitsmálning á andlitið – en það var forritari í Þýskalandi sem spurði mig hvort hann mætti búa þetta til. Tímasetningin var svolítið fyndin en ég hef verið að kveðja þetta tímabil svolítið og það er skemmtilegt að senda það þá út í heiminn,“ segir Hera að lokum

Facebook-viðburður tónleikanna

Fyrri greinMiðasala á tónleika Unnar Birnu & Bjössa Thor hófst í dag
Næsta greinBrunavarnir Rangárvallasýslu semja við Trésmiðju Ingólfs