Létu drauminn rætast og opnuðu vinnustofu á Selfossi

Dúdda, Eyrún og Hanna Siv við opnun HÚM stúdíó á Selfossi í júlí 2021. Ljósmynd/Aðsend

Þrjár vinkonur ákváðu að láta drauma sína rætast og opnuðu HÚM stúdíó, sem er vinnustofa og sölurými, á Selfossi í vikunni.

Þær Hanna Siv Bjarnardóttir, Eyrún Guðmundsdóttir og Kristrún Helga Marinósdóttir (Dúdda) standa að HÚM stúdíó.

„Við vinkonurnar ákváðum fyrir ekki svo löngu síðan að láta drauma okkar rætast og opna saman stúdíó á Selfossi. Stað þar sem við værum með vinnuaðstöðu í bland við sölurými. Við fundum heppilegt húsnæði og við tóku tvær vikur frá því að við fengum húsnæðið afhent þar til við héldum opnunarteiti á fimmtudagskvöld,“ segir Dúdda í samtali við sunnlenska.is en stúdíóið er á 2. hæð að Austurvegi 9.

„Í rýminu var áður saumastofa en það voru rifnir niður veggir, múrað, slípað, sparslað og pússað auk þess sem veggir og gólf voru máluð. Það er skemmtilegt að geta sagt frá því að við gerðum nánast allt sjálfar. Nú erum við komnar með glæsilegt rými sem verður gaman að skapa í,“ bætir hún við.

Hanna Siv er ljósmyndari en hún er með stúdíóaðstöðu á staðnum, auk þess sem hún selur ljósmyndaverk. Eyrún er Bowen-tæknir og er hægt að panta tíma hjá henni í Bowen en hún er einnig húsgagnasmiður og er að þróa spennandi vörur. Dúdda selur síðan ullarverk en auk þessa eru verk tveggja listakvenna í sölu hjá HÚM stúdíó; teikningar eftir Eddu Linn Rise og blómaplattar eftir Steinunni Birnu Guðjónsdóttur.

„Það er ennþá möguleiki á að leigja sér aðstöðu hjá okkur, eða koma vörum í umboðssölu. Þetta er frábært tækifæri fyrir konur sem eru að koma sér á framfæri að geta stutt við hvora aðra í fyrstu skrefunum í rekstri,“ segir Dúdda að lokum.

HÚM stúdíó er opið þegar skiltið er úti á gangstétt en fastir opnunartímar eru frá kl. 12-18 á fimmtudögum og föstudögum og kl. 11-16 á laugardögum en einnig eftir samkomulagi.

HÚM stúdíó á Facebook

HÚM stúdíó á Instagram

Fyrri greinTap í Grafarvoginum
Næsta greinNýi miðbærinn opnar „mjúklega“