Lesið úr jólabókunum

Að vanda verður lesið úr jólabókum á Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi í kvöld. Húsið verður opnað klukkan átta og um stólana gildir hið fornkveðna að fyrstur kemur, fyrstur fær.

Þeir höfundar sem mæta að þessu sinni eru: Ófeigur Sigurðsson kynnir bók sína Landvættir sem hlotið hefur afbragðs dóma, nútímasaga með víða skírskotun. Selfyssingurinn Sigurður Bogi Sævarsson sem gaf á árinu út annað bindi í bókaflokki sínum Fólk og fréttir segir frá en í bók hans er m.a. fjallað um atómbombur, Suðurlandsskjálfta og kaupfélagsstjóra. Emil Hjörvar Pedersen les úr öðru bindi fantasíusagna sinna um æsi Ásgarðs og endurreisn eftir ragnarök. Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur kynnir bók sína Sagan af klaustrinu á Skriðu, alþýðlegri frásögn af fornleifarannsókn. Þá segir bóksalinn Bjarni Harðarson lítillega frá bók sinni Mensalder.

Laugardaginn 15. desember klukkan 15 treður hin sunnlenska þjóðlagasveit Korka upp í bókakaffinu með dagskrá fyrir unga sem aldna.

Mánudaginn 17. desember kl. 17:30 verða þeir Einar Már Guðmundsson rithöfundur og Bjartmar Guðlaugsson tónlistarmaður með létta dagskrá. Bjartmar flytur lög af nýútkominni afmælis- og ferilsplötu sinni en Einar les úr bók sinni Íslenskir kóngar.

Fimmtudaginn 20. desember er svo síðasta upplestrarkvöld vetrarins en þá mæta meðal annars Einar Kárason, Ólafur Gunnarsson, Heiðrún Ólafsdóttir og fulltrúar Inga Vítalín sem heiðurinn á af fyrstu íslensku vísindaskáldsögunni.

Fyrri greinBræðurnir þrettán mættir
Næsta greinVilja hraðbanka við ströndina