Lesið upp úr risastórri Nonnabók

Helga Jóhanna Úlfarsdóttir, rithöfundur, var á ferðinni í leikskólum Árborgar í morgun og las upp úr sögum sínum af Nonna.

Krakkarnir á Álfheimum voru ánægðir með heimsókn Helgu Jóhönnu þegar Sunnlenska.is leit þar við í morgun. Helga las upp úr fyrstu bók sinni, Nonni fer í bátsferð, og við lesturinn notar hún mjög stórt eintak af bókinni sem börnunum finnst mjög skemmtileg upplifun.

Nonnasögur eru nýjar á markaðnum og nú hafa tvær sögur komið út. Helga Jóhanna stefnir á að gefa út nýja bók í hverjum mánuði og á næstu fimm árum ættu bækurnar því að verða sextíu.

„Nonnasögur eru stuttar sögur um 4 ára strák og ævintýrin sem hann lendir í. Með hverri bók gef ég líka út aukaefni, hljóðdiskur kemur út fjórða hvern mánuð og ég stefni á að gefa út spil fyrir jólin og jafnvel tónlistardisk,“ sagði Helga Jóhanna í samtali við Sunnlenska.is.

Nánar má skoða Nonna á www.nonnasogur.is