Leiklist: Tvíleikur í FSu

Leikfélag NFSu setur upp tvö stuttverk þetta vorið, Perfect eftir Hlín Agnarsdóttur og Tjaldið eftir Hallgrím Helgason. Tvíleikurinn er sýndur í hátíðarsal Fjölbrautaskóla Suðurlands, Perfect fyrir hlé og Tjaldið eftir hlé.

Verkin tvö eru meðal þriggja verka sem boðið er uppá hjá Þjóðleik í vetur. Þjóðleikur er leiklistarhátíð ungs fólks sem haldin er annað hvert ár á landsbyggðinni. Sömu verkin eru sett upp víða um land og lokahátíðir eru haldnar að vori þar sem allar sýningar í hverjum landsfjórðungi koma saman.

Í Perfect er úrslitaþáttur hæfileikakeppninnar Perfect settur á svið. Þarna er fyrirmyndin sjónvarpskeppnir eins og Idol og X-Factor með skrautlegum þátttakendum og enn skrautlegri dómurum. Framvindan á sviðinu er brotin upp með myndbandsinnslögum þar sem keppendur eru kynntir til leiks. Það er skemmtilegt uppbrot og myndböndin eru ágætlega unnin þó að meira hefði mátt leggja í útlit og umgjörð þeirra.

Verkið sjálft er frekar þunnt og gerir ekki miklar kröfur til leikhópsins en þeir leikarar sem mest mæðir á nýta samt sitt tækifæri til að fara á kostum. Þetta eru þáttastjórnandinn og dómararnir sem leikin eru af Gunnlaugi Ragnarssyni, Sonju R. Sævarsdóttur og Stefáni Elí Gunnarssyni. Þau geisla öll af öryggi og það er gaman að fylgjast með samskiptum þeirra á sviðinu en Stefán Elí stelur algjörlega senunni – og fer létt með það.

Í Tjaldinu – eftir hlé – er meira kjöt á beinunum. Verkið gerist eina nótt á útihátíð þar sem nauðgun hefur átt sér stað.

Aðalleikararnir í þessu stykki fá tækifæri til að kljást við meiri dýpt í sínum persónum og standa sig vel, sérstaklega nauðgunarfórnarlambið Kristín Rut Eysteinsdóttir og vinkonur hennar, Emma Guðmundsdóttir og Ragnheiður Sigurgeirsdóttir. Þær hvíla allar vel í hlutverkum sínum, allan tímann og Guðfinna leikstjóri og hefur lagt hárrétta línu fyrir Kristínu Rut í hlutverki sem auðvelt er að ofleika, en Kristín spilar hárfínt á tilfinningaskala persónunnar og er stjarna þessarar sýningar.

Framvinda verksins er þó frekar hæg og listræn innslög Verunnar gera lítið annað en hægja enn frekar á tempóinu.

Tónlistin spilar stóra rullu í sýningunni og þar er vel að verki staðið. Hljómsveitin Aragrúi ber ábyrgð á þeirri vinnu og sem var faglega afgreidd og notkun tónlistar sem áhrifahljóða kom mjög vel út í Tjaldinu.

Nemendafélagið hefur ekki gert mikið af því að setja verk sín á svið í sal skólans. Það er svosem ekki skrýtið enda salurinn ekki hannaður sem leikhús. Lofthæðin yfir sviðinu er mikil og sviðið grunnt og breitt. Leikararnir þurfa þeim mun meira að vanda sig við að beita röddinni ef loftið á ekki að gleypa allan hljóminn.

Erfitt getur verið að lýsa sviðið þó að það hafi ekki verið stórt vandamál í þessari uppfærslu, lýsingin var snyrtileg og öll umgjörð með ágætum, búningar og leikmynd – sem reyndar var mjög lítil að umfangi – enda á að ferðast með stykkin tvö.

Í það heila; ágætis skemmtun og margir efnilegir leikarar á sviðinu sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni – og vel spilandi hljómsveit.

Leiklistarhátíð Þjóðleiks á Suðurlandi verður haldin á Stokkseyri helgina 19.-21. apríl. Þar mun leikhópur FSu sýna verkin tvö, Tjaldið og Perfect. Þar munu einnig tíu aðrir leikhópar sýna sínar útfærslur af þeim þremur leikverkum sem Þjóðleikur býður upp á. Næsta sýning á Tvíleik er í sal FSu þann 9. apríl.

Guðmundur Karl Sigurdórsson

Leikfélag NFSu sýnir Perfect eftir Hlín Agnarsdóttur og Tjaldið eftir Hallgrím Helgason. Leikstjóri: Guðfinna Gunnarsdóttir. Framkvæmdastjórn/aðstoðarleikstjórar: Fríða Hansen og Sara Margrét Magnúsdóttir. Tónlistarstjóri: Tómas Smári. Ljósahönnun: Guðmundur Bjarnason og Einar Karl Júlíusson. Hljóðvinnsla: Guðmundur Bjarnason. Myndbandavinnsla og sviðsstjórn: Sara Margrét Magnúsdóttir. Hljómsveitin Aragrúi: Margrét Rán, Tómas Smári, Hlynur Daði og Markús.

Fyrri greinTveir nálægt flugtakshraða
Næsta greinGuðmunda tryggði Íslandi sigur