Leiklestur í Hlöðunni að Kvoslæk

Leikararnir fjórir ásamt Sveini Einarssyni leikstjóra og Rut Ingólfsdóttur þýðanda. Ljósmynd/Aðsend

Sunnudaginn 23. júní kl. 15.00 verður leiklestur með tónlist að Kvoslæk í Fljótshlíð.

Stjörnuleikararnir Brynhildur Guðjónsdóttir, Arnar Jónsson, Ragnheiður Steindórsdóttir og Þór Tulinius flytja valda kafla úr þýðingu Rutar Ingólfsdóttur á franska meistaraverkinu Stílæfingar eftir Raymond Queneau. Bókin kom fyrst út hjá Gallimard-útgáfunni 1947 og hefur margoft verið gefin út síðan, síðast 2012, enda er bókin mikið lesin í Frakklandi og hefur einnig verið notuð í kennslu.

Þýðing Rutar kemur út hjá bókaútgáfunni Uglu í vikunni og mun þetta vera 36. tungumálið sem verkið er þýtt á. Stílæfingar Queneaus er þekktar um heim allan, en í stílæfingunum segir höfundurinn litla sögu á níutíu og níu vegu. Þar leikur hann sér að mismunandi stíl, upphöfnum, lágkúrulegum, ljóðformum, orðaleikjum, stafabrengli svo fátt eitt sé nefnt.

Sveinn Einarsson er leikstjóri flutningsins og milli kafla leika þau Einar Jóhannesson, klarinettuleikari, Sigurður I. Snorrason, klarinettuleikari og Anna Guðný Guðmundsdóttir, píanóleikari létta skemmtitónlist sem franska tónskáldið Louis Dunoyer de Segonzac samdi til flutnings með verkinu árið 2008.

Leiklesturinn hefst kl. 15:00 og tekur um klukkustund. Boðið verður upp á kaffi að lestrinum loknum. Aðgöngumiðar við innganginn 2000 kr.

Fyrri greinTap gegn toppliðinu
Næsta grein„Hentar ekki þeim sem óttast mannslíkamann“