Leikfélag Selfoss fagnar jólunum

Leikfélag Selfoss endurvakti í fyrra fornan sið úr starfi félagsins að halda jólakvöld um miðjan desember fyrir gesti og gangandi.

Tókst það með miklum ágætum og því mun leikfélagið endurtaka leikinn þetta árið og halda árlegt jólakvöld í kvöld, 16. desember í Litla leikhúsinu við Sigtún. Jólakvöldið verður lágstemmd, róleg og heimilisleg stund þar sem fólk getur notið sín og nærveru annarra. Þar er upplagt að slaka á í jólaundirbúningnum, njóta augnabliksins og stemningarinnar á afslappaðann hátt í góðu og hlýju umhverfi leikhússins.

Í fyrra voru flutt kvæði, sögur og ljóð, Grýla kom í heimsókn og fólk kom með smákökur og drakk kaffi og kakó meðan það naut samverunnar. Hver veit hvað gerist í ár.

Húsið opnar kl. 19:45 og eru allir velkomnir og alfrjálst að kíkja við í lengri eða skemmri tíma. Leikhúsið er alveg tilvalinn viðkomustaður á kvöldgöngunni í jólastemningunni.

Fyrri greinHverfisráð stofnuð í Árborg
Næsta greinHafa afþakkað samningaviðræður við Árborg