Leiðsögn á síðustu sýningarhelgi

Leiðsögn verður á sumarsýningu Byggðasafns Árnesinga í Húsinu á Eyrarbakka sunnudaginn 27. september kl. 16. Sýningin nefnist "Konur, skúr og karl – Ljósmyndarar á Stokkseyri 1896-1899".

Linda Ásdísardóttir, safnvörður segir frá starfi og umhverfi þriggja ljósmyndara sem störfuðu á Stokkseyri á árunum 1896-1899. Þetta voru Margrét Möller, Lára Ólafsdóttir og Ingimundur Eyjólfsson sem voru öll áhugaverðir einstaklingar bæði í sínu fagi og utan þess.

Fjölmargar konur störfuðu sem ljósmyndarar á upphafsárum fagsins á Íslandi sem er merkilegt við skoðun á þátttöku kvenna í atvinnulífinu.

Stokkseyri var á þessum tíma öflugur verslunarstaður og var ljósmyndarekstur í þorpinu eitt merki þess.

Frítt verður á leiðsögnina og heitt á könnunni. Komandi helgi er síðasta opnunarhelgi sumarsins og þá er kjörið tækifæri að skoða safnið.

Fyrri greinAðeins einn af fimm með beltið spennt
Næsta greinKristinn Þór skiptir yfir í Selfoss