Langþráð strengjamót á Selfossi um helgina

Frá lokatónleikum Strengjamótsins á Akureyri 2018 í Menningarsalnum Hofi. Ljósmynd/Tónlistarskólinn á Egilsstöðum

Um komandi helgi, dagana 7. til 9. október verður haldið strengjamót á Selfossi, þar sem strokhljóðfæranemendur af öllu landinu stilla saman strengi sína.

Alls munu 250 börn og unglingar á aldrinum 7-17 ára skipa fjórar stórar hljómsveitir, eftir því hvar þau eru stödd í náminu. Hljóðfæraleikararnir spila á fiðlur, víólur, celló og kontrabassa. Stjórnendur sveitanna eru Örnólfur Kristjánsson, Kristján Matthíasson, María Weiss og Guðmundur Óli Gunnarsson.

Að sögn Guðmundar Pálssonar, skipuleggjanda mótsins, er sérstaklega ánægjulegt að tekist hafi að halda mótið í þriðja tilhlaupi, því það stóð til að hafa strengjamótið á Selfossi haustið 2020.

„Covid-19 tókst að fresta mótinu um tvö ár. Þessi strengjamót eru haldin til skiptis í sveitarfélögum landsins, annað hvert ár og var mótið síðast haldið á Akureyri haustið 2018,“ segir Guðmundur. „Það verður æft á fullu alla helgina og lokatónleikar verða klukkan 13:00 í íþróttahúsi Vallaskóla sunnudaginn 9. október og þar eru allir velkomnir,“ segir Guðmundur ennfremur.

Fyrri greinLiam áfram með ÍBU
Næsta greinSamstöðumótmæli í ML