Langholtskirkja 150 ára

Í dag kl. 13 verður haldið upp á 150 ára afmæli Langholtskirkju í Meðallandi með hátíðarmessu.

Á eftir messu verður boðið upp á kirkjukaffi að í Efri Vík.

Kirkja Meðallendinga var flutt eftir að hraun rann yfir sóknarkirkjunar í Hólmaseli í Skaftáreldum, hinn 20. júní 1783. Fór kirkja sú undir hraunstrauminn með öllum kirkjugripum og verðmætum sem í henni voru, þar á meðl kirkjuklukku sem að sögn var eign Þykkvabæjarklausturskirkju í Veri og vó 12 fjórðunga.

Fyrsta kirkjan í Langholti var torfkirkja. Hún var endurbyggð 1831 en aftur komin að falli 1855. Þá var ákveðið að byggja timburkirkju þá sem enn stendur. Langholtskirkja er byggð úr söguðu rekatimbri en grunnurinn er úr steinlímdu hraungrjóti. Árið 1862 hófst vinna við að saga timbrið og árið eftir, hinn 14. desember 1863, var henni skilað fullbúnni. Grunnflötur kirkjunnar er 12.8×6,4m og tekur nær 200 manns í stæði.

Yfirsmiður var Jóhannes Jónsson, snikkari úr Reykjavík, sá hinn sami og smíðaði kirkjuna á Prestbakka á Síðu. Í kirkjunni er altaristafla eftir Anker Lund, danskan málara. Skírnarsár, útskorin, vandaður gripur, er eftir Meðallendinginn Einar Einarsson sem um skeið var djákni í Grímsey. Yfir kirkjudyrum innanhúss hangir fjöl sem hefur upphaflega verið á leiði í kirkjugarðinum. Hún er með níu leturlínum er segja frá manni Erasmusi Halldórssyni (1786-1873) er átti tvær konur. Þær hétu Fídes Árnadóttir og Karítas Brynjólfsdóttir. Þykir það einkennileg tilviljun, því Fídes þýðir trú og Karítas kærleikur.

Fyrri greinHéraðsskólinn fær nýtt hlutverk
Næsta greinFuglaskoðun í Friðlandinu í dag