Landslagsfantasíur Ogga á bókasafninu

Í dag opnar ný myndlistarsýning á Bókasafninu í Hveragerði. Óskar Arnar Hilmarsson sýnir þar 12 olíumálverk máluð á árunum 2005-2012.

Óskar er frá Skálabrekku í Þingvallasveit. Hann flutti þaðan 2001 á höfuðborgarsvæðið en kunni ekki við sig og flutti til Hveragerðis árið 2010, aftur í „sveitina“.

Óskar fór að mála árið 2003. Hann hafði starfað sem sendibílstjóri í 25 ár og missti vinnuna sem hann hafði eftir hádegið og fór þá að dunda sér við að mála í skúrnum. Hafði þá ekkert átt við málun en haft gaman af teikningu á yngri árum. Hann sótti síðan námskeið í olíumálun hjá Halldóri Árna Sveinssyni á vegum Námsflokka Hafnarfjarðar.

Óskar sýndi myndir sínar í Energia í Smáralind árið 2007, en einnig tók hann þátt í samsýningu starfsmanna Orkuveitu Reykjavíkur árið 2008. Hann er félagi í Myndlistarfélagi Árnessýslu.

Allar myndirnar eru til sölu nema nýjasta myndin, sem er af Skálabrekku.

Sýningin, sem stendur til 10. maí, er opin um leið og safnið, virka daga kl. 13-19 og laugardaga kl. 11-14.