Lag tileinkað heimabænum á nýrri plötu Jökuls Loga

Jökull Logi. Ljósmynd/Kata Jóhanness

Tónlistarmaðurinn Jökull Logi hefur sent frá sér nýtt lag. Það nefnist Stokkseyri og verður á komandi plötu Jökuls, Bóndi í Brekku, sem kemur út í lok mánaðarins.

„Lagið er tileinkað heimabænum mínum Stokkseyri, en þar ólst ég upp og bjó mestallt mitt líf. Mér þykir ósköp vænt um þorpið mitt en þegar ég hugsa til baka er einhver hrá, þung tilfinning í fyrirrúmi. Mér líður eins og að lagið grípi það og setji svip á komandi plötu,“ segir Jökull Logi í samtali við sunnlenska.is.

Platan verður gefin út af þýska plötuútgáfufyrirtækinu Urban Undergrounds. Um er að ræða djassskotið hip hop, eins og Jökull Logi hefur verið þekktur fyrir.

„Nýja platan er aðeins meira lifandi en fyrri verk þar sem ég brúka aðeins meira hljóðfærin. Ég fæ líka nokkra góða gesti til mín á plötuna. Söng- og tónlistarkonan Mileena ljáir rödd sína í einu lagi, rapparinn Ahmir The King í öðru og svo gekk til liðs við mig íslenski rapparinn Vivid Brain sem er kominn af varamannabekknum eftir áralanga þögn,“ segir Jökull Logi að lokum.

Lagið Stokkseyri má heyra hér að neðan.

Fyrri greinÚrslit í hugmyndasamkeppni kynnt á morgun
Næsta grein„Mikilvægt að hafa þjálfara á hliðarlínunni“