Kynningarkvöld fyrir nýliða á mánudaginn

Karlakór Selfoss. Ljósmynd/Laufey Ósk

Fimmtugasta og sjöunda starfsár Karlakórs Selfoss er að hefjast núna í lok september. Boðað er til kynningarskvölds fyrir nýja félaga mánudaginn 27. september kl. 20:00 í félagsheimili kórsins og í framhaldi af því verður fyrsta æfing. Eru því bæði nýjir og eldri félagar hvattir til að mæta þetta kvöld.

Verkefnaval vetrarins er ekki endanlega ákveðið, en þar verða trúlega í bland eldri og þekkt karlakórslög og svo ný verk, útsett af stjórnanda kórsins Skarphéðni Þór Hjartarsyni. Píanóleikari kórsins verður eins og undanfarin ár Jón Bjarnason, organisti í Skálholti.

Æft verður á mánudagskvöldum í félagsheimili kórsins að Eyravegi 67, Selfossi, kl. 20:00-22:30.

Aðalfundur Karlakórs Selfoss var haldinn 13. september sl. og þar var stjórn kórsins endurkjörinn, en formaður hans er Ómar Baldursson.

Jólatónleikar
Að venju verða jólatónleikar á dagskrá kórsins og er sérstaklega leitast við að hafa þá hátíðlega og um leið skemmtilega. Væntanlega verður sungið í Selfosskirkju og Skálholtskirkju um miðjan desember. Aðgangur að jólatónleikunum er eins og fyrr ókeypis og allir velkomnir.

Starfið á nýju ári
Fastur liður í starfsemi Karlakórs Selfoss undanfarin ár eru herrakvöld um miðjan janúar, þar gæða kórfélagar og gestir þeirra sér á sviðum og saltkjöti. Á útmánuðum einbeita söngmenn sér svo að undirbúningi vortónleika sem samkvæmt venju hefjast á sumardaginn fyrsta í Selfosskirkju, en kórinn mun væntanlega syngja á fernum vortónleikum í lok apríl og byrjun maí 2022.

Allt fer þetta samt eftir framvindu heimsfaraldursins, sem sett hefur alla félagsstarfsemi úr skorðum undanfarin tæp tvö ár. En með bjartsýni í huga er vonast til að þessi áform um starfsemi Karlakórs Selfoss á komandi mánuðum geti gengið eftir.

Fyrri greinLýsa yfir vonbrigðum með vinnulag við friðlýsingu
Næsta greinVæn sekt fyrir hraðakstur