Eiríkur Már Rúnarsson, fangavörður frá Eyrarbakka, svaraði nokkrum áramótaspurningum fyrir sunnlenska.is.
Hvernig var árið 2025 hjá þér? Árið var heilt yfir bara gott hjá fjölskyldunni. Móðursystir mín lést í lok sumars sem setur árið aðeins niður en að öðru leyti bara fínasta ár hjá mér og mínum.
Hvað stóð upp úr á árinu? Það eru nokkrir hápunktar. Frumburðurinn útskrifaðist úr grunnskóla sem var hátíðlegur og skemmtilegur áfangi. Liverpool urðu Englandsmeistarar í 20. skipti. Já, það spilar stóra rullu í lífi flestra Íslendinga hvernig liðinu þeirra í enska gengur. Ítalíuferð með félögum mínum í Roundtable og Danmerkurferð með stjórn Fangavarðafélags Íslands. Einnig fór ég hringferð um landið með fjölskyldunni og síðast en ekki síst voru Smashing Pumpkins sturlaðir á tónleikum í Laugardalshöllinni.

Hvaða lag hlustaðir þú oftast á? Just like Heaven með The Cure hefur trónað á toppnum á Spotify í nokkur ár. Lag sem verður betra við hverja hlustun og kemur mér alltaf í betra skap. Porcelina of the Vast Oceans með Smashing Pumpkins komst svo naumlega í annað sætið.
Hvað finnst þér ómissandi að gera alltaf á gamlársdag/kvöld? Í seinni tíð eiginlega ekkert, þar sem ég er nánast alltaf að vinna um áramót en í æsku minni á Eyrarbakka var ómissandi hefð hjá mér og vini mínum Sævari Sig að horfa á íþróttaannálinn saman og sprengja svo 2-3 flugelda á eftir. Ég kveiki mér reyndar alltaf í einum vindli á miðnætti hvort sem ég er að vinna eða heima. Og svo bara þetta klassíska, skaup og kósý.
Hvað ætlarðu að gera um áramótin? Ég verð á kvöldvakt til 23:15 og fer þá bara heim í stjörnuljós og einhverja smáflugelda fyrir þau yngstu. Ég er svo heppinn að familían deilir flugeldaóþoli mínu með mér. Ætli ég horfi svo ekki á Skaupið í rólegheitum þegar Selfyssingar eru hættir að sprengja.
Hvað er í matinn á gamlárskvöld? Við höfum engar matarhefðir á áramótum, bara það sem okkur langar í hverju sinni. Í fyrra vorum við t.d bara með heimagerða hamborgara, franskar og með því. Í ár borða ég í vinnunni og skilst að það verði mikil veisla, naut og bernais. Fjölskyldan nýtir sér fjarveru mína (ég borða helst ekki kjúkling) og ætlar að hafa einhvern fansý kjúklingarétt.
Strengir þú eitthvað áramótaheit? Efast um að ég geri það í ár en ég hef oft strengt einhver heit sem ég er búinn að gleyma 2. janúar. Annars bara þetta klassíska að reyna að vera góður við menn og dýr. Kannski ég leyfi Alla Matt að draga mig loksins út á golfvöll.
Hvernig leggst nýja árið í þig? Bara vel. Ferming hjá barni nr. 2 og vonandi mun svo lífið bara ganga sinn vanagang.

