Kristjana og Svavar Knútur í Tryggvaskála

Söngdúllurnar Svavar Knútur og Kristjana Stefáns sækja Selfyssinga heim í kvöld og stefna að því að gleðja kaupstaðarbúa með dásamlegum dúettatónleikum í Tryggvaskála kl. 21.

Kristjana og Svavar Knútur hafa vakið verðskuldaða athygli fyrir stórskemmtileg dúettakvöld, þar sem þau láta gamminn geysa og taka saman fjölbreytta dagskrá dúetta, sem rúmar allt frá Abba til Dolly Parton með viðkomu hjá Nick Cave og Páli Ísólfssyni, auk frumsamdra laga og hinna ýmsu gleði- og tregabomba. Kántrý, Evróvisjónpoppsmellir, blágresi og íslensk sígræn skólaljóð eru í fyrirrúmi.

Kristjana og Svavar hafa síðan 2008 haft unun af því að syngja saman dúetta og komið fram m.a. í Stokkseyrarkirkju, Viðeyjarstofu, Víkinni og víðar við gríðargóðar undirtektir.

Tónleikarnir hefjast kl. 21 og verður kósýkvöldsstemmningin allsráðandi.

Kristjana Stefánsdóttir hefur fyrir löngu skipað sér sess sem einástsælasta söngkona landsins og drottning íslenska djassins. Hún hefur gefið út fjölda hljómplatna bæði með sígildum djasslögum, blúslögum og eigin tónsmíðum í samstarfi við marga af færustu tónlistarmönnum Íslands. Hún hefur líka starfað farsællega innan leikhússins, m.a. í hinum stórvinsælu leikritum Dauðasyndunum sjö, Galdrakarlinum í Oz og Jesús litla.

Svavar Knútur hefur undanfarin ár notið ört vaxandi velgengni sem söngvaskáld og tónlistarmaður. Hann hefur ferðast mikið erlendis undanfarin ár með tónlist sína og gefið út fjórar hljómplötur á síðustu sex árum, þar af þrjár sólóplötur síðustu þrjú ár, Kvöldvöku, Ömmu og Ölduslóð.

Fyrri greinEinar ánægður með Þýskalandsdvölina
Næsta greinSumar á Selfossi hefst í dag